Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 15:58:51 (4200)

2003-02-27 15:58:51# 128. lþ. 85.1 fundur 445#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[15:58]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kýs að vísa þessu með hættumatið sem þurfi að fara fram til hæstv. utanrrh. En ég er alveg sammála þingmanninum að flokkspólitík á ekki að ráða því hvernig við metum þá hluti. Hins vegar hef ég farið í gegnum þær skýrslur sem við höfum fengið, Hnattvæðing Íslands, Öryggi við aldahvörf og friðargæsluskýrsluna o.fl., og við höfum rætt það í utanrmn. hvernig staðan sé varðandi varnarsamninginn. Hér í dag var það rætt og utanrrh. svaraði því að bókunin við varnarsamninginn væri í raun og veru í gildi þrátt fyrir að hún sé runnin út í raun, að samstarfið í því samhengi sem það hefur verið verður áfram nema eitthvað sé að gert. Ég skil því ekki alveg þennan kafla í ræðu þingmannsins þegar hann hefur upp raust sína og fer að tala um varnarsamstarfið og viðræður núna, að taka þurfi upp viðræður um hvernig best sé að þessum málum staðið í ljósi þeirrar umræðu sem farið hefur fram hér í dag og í ljósi þeirrar umræðu sem hefur farið fram við utanrrh. í utanrmn. Ég vil því, virðulegi forseti, algjörlega vísa því frá að hér sé verið að fara inn í einhverja flokkspólitík. Við í Samfylkingunni höfum ekki unnið þannig varðandi nákvæmlega þessi mál, en mér fannst örlítið veist að utanrrh. í ræðu þingmannsins í þessum orðum hans og ég er þá fegin því að ég hef misskilið orð hans.