Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 16:00:44 (4201)

2003-02-27 16:00:44# 128. lþ. 85.1 fundur 445#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), BBj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[16:00]

Björn Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Í öðru orðinu segist hv. þm. ekki skilja hvað ég hafi átt við en segist á hinn bóginn hafa misskilið það sem ég átti við. Það er mjög erfitt að deila um þessi mikilvægu mál á þessum forsendum. Ég var ekki að veitast að utanrrh. á neinn hátt og algjör óþarfi hjá hv. þm. að gera því skóna, að í orðum mínum hafi falist gagnrýni á utanrrh. Ég fór yfir það að á fimm áratugum hefðu menn á hverjum einasta áratug gert úttekt á öryggismálum Íslands með einum eða öðrum hætti, hvort heldur í umræðum um varnarsamninginn við Bandaríkin eða í sérstökum athugunum sem þeir hafa gert hér á landi. Ég taldi að nú í upphafi nýrrar aldar væri nauðsynlegt að huga að þessu með jafnskipulegum hætti og menn hefðu oft áður gert þegar öryggismálin hafa verið til umræðu. Ef þingmaðurinn getur ekki skilið þetta veit ég ekki hvað hún getur skilið af því sem ég sagði í ræðu minni.