Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 16:26:57 (4208)

2003-02-27 16:26:57# 128. lþ. 85.1 fundur 445#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[16:26]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir. Það er einmitt málið. Ég held að menn hafi verið samdóma um það á ráðstefnunni í Jóhannesarborg að það eru niðurgreiðslur hinna efnuðu ríkja sem hafa komið í veg fyrir að þróunarríkin næðu yfirleitt nokkurri markaðsstöðu. Auðvitað er þessi svokallaði infrastrúktúr enginn í þessum ríkjum. Þá er spurningin: Hvar á að byrja? Þjóðir eins og Íslendingar hafa reynt að byggja upp menntakerfið í gegnum Þróunarsamvinnustofnun Íslands með því að reisa grunnskóla og með því að byggja upp heilbrigðiskerfið og ráðgjafar- og þróunarstarf. Ég held að utanrrn. undir stjórn hæstv. ráðherra hafi að því leytinu einmitt tekist afskaplega vel til.

Ég hef minnst á það áður í þessum stóli að ótrúlegt hefur verið að sjá hvernig sumar aðrar þjóðir hafa byggt upp slíkt þróunarstarf sem hefur svo engum nýst og engum verið til gagns, því miður, vegna þess að menn fóru kannski af stað með of miklu óðagoti. En þarna hefur náðst að byggja upp farsælt starf í miklu samráði við heimamenn sem þeir eru ánægðir með.

Hvernig á að byggja upp þennan infrastrúktúr? Ég lít svo á að það sé hluti af því sem Íslendinga eru að gera. Þetta er langtímaþróun. Alþjóðasamtök þingmanna í umhverfismálum, GLOBE, hafa einmitt beint sjónum sínum að því hvernig nota eigi styrki auðugra ríkja til þess að byggja upp sjálfbær orkufyrirtæki í þessum fátæku ríkjum. En það þarf auðvitað að gera þannig að þessi ríki standi betur eftir en áður.