Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 16:29:28 (4209)

2003-02-27 16:29:28# 128. lþ. 85.1 fundur 445#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[16:29]

Árni R. Árnason:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. greinargóða skýrslu um utanríkismál. Ekki síst á hvern hátt hann leggur fram í ræðu sinni hvernig þau mál blasa við okkur Íslendingum, í ljósi þess að við þurfum að leggja mjög mikið upp úr þátttöku okkar í alþjóðastofnunum. Við höfum mikla þörf fyrir góð samskipti við grannríki okkar og raunar ríki um víða veröld til þess að ná þeim markmiðum sem við hyggjumst ná í efnahagsmálum, þ.e. að bæta og treysta lífskjör þjóðarinnar til langframa.

[16:30]

Þau mál sem hér hefur borið á góma hafa verið rædd í ýmsum alþjóðastofnunum sem Íslendingar eiga þátt í. Þar kemur til Íslandsdeild NATO-þingsins sem ég skipa nú formennsku fyrir. Þar hefur ástandið eins og það birtist í austanverðri Evrópu og grannsvæðum okkar í Miðausturlöndum mjög borið á góma. Ekki síst í ljósi þess að þangað mátti rekja rætur hinnar miklu alþjóðlegu hryðjuverkaógnunar sem steðjaði að öllum Vesturlöndum fyrir tæpum tveimur árum og hefur náttúrlega verið undirtónn í allri umræðu öryggissamtaka ríkja í vesturálfu, hvort heldur er Atlantshafsbandalagið, ÖSE eða önnur slík. Raunar hefur það líka verið undirtónn í umræðu Evrópusambandsríkjanna um öryggismál og mótun sameiginlegrar utanríkisstefnu, hvort sem þau eru aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða ekki.

Ég vil gjarnan láta það heyrast, herra forseti, að á fundum þingmannasamkundu Atlantshafsbandalagsins sem hefur hist að jafnaði fimm sinnum á ári undanfarin ár, og fimm sinnum á síðasta ári, voru þessi mál alltaf til umræðu, ásamt þeim málum sem tengjast stækkun bandalagsins. Við Íslendingar meðal annarra lögðum mjög mikla áherslu á og studdum þar sérstaklega inngöngu Eystrasaltsríkjanna þriggja í bandalagið sem nú er að takast. Raunar er gert ráð fyrir því að vorið 2004 verði sjö ný aðildarríki að bandalaginu staðfest og þá verði bandalagið orðið samtök 26 ríkja sem er mikil stækkun frá því sem verið hefur.

Á þessum fundum og sérstaklega eftir því sem leið á árið voru áberandi ólíkar skoðanir og áherslur bandalagsríkjanna vegna hugsanlegra átaka við Írak sem er næsta verkefni Vesturlanda í baráttunni gegn útbreiðslu gereyðingarvopna og gegn aukinni hryðjuverkastarfsemi á alþjóðavettvangi. Þar hefur verið mjög áberandi að sérstaklega Frakkland, Þýskaland og Belgía hafa metið með öðrum hætti en öll önnur bandalagsríki hvernig eigi að bregðast við hugsanlegri árás Íraks á Tyrkland. Og verður að segja að þær umræður hafa verið mjög merkilegar.

Ég vil gjarnan greina frá því hér, herra forseti, að á fyrsta fundi þingmannasamtaka Atlantshafsbandalagsins fyrr á þessu ári, raunar fyrr í þessum mánuði, urðu þau atvik sem vöktu mikla athygli, ekki einungis hér, ekki einungis í öllum bandalagsríkjunum, heldur víðar um Evrópu og víðar um Vesturlönd. Það var þegar þessi þrjú ríki sem ég nefndi hafði greint á við önnur bandalagsríki um hvernig ætti að bregðast við óskum Tyrkja um að bandalagið skyldi styrkja varnir þeirra í samræmi við ákvæði í sáttmála bandalagsríkjanna, Atlantshafssamningnum. Þessi þrjú ríki vildu sem sé ekki bregðast við óskum Tyrkja eins og hin töldu rétt að gera. Hin töldu rétt að gera það án vafninga á grundvelli ákvæða í samningnum. Þessi þrjú lögðust gegn því og töldu það ekki tímabært. Það verður að segjast eins og er, herra forseti, að það vakti mikla athygli mína og nokkurra fleiri hvernig hin nýju aðildarríki bandalagsins sem verða fullkomnir aðilar í ársbyrjun 2004, eftir u.þ.b. eitt ár, greindi á við þessi þrjú bandalagsríki, og hvernig tvö af þessum þremur brugðust við þessum sjónarmiðum nýrra bandalagsríkja. Var sagt í hreinskilni af hálfu Pólverja og talsmanna þeirra að þeir vildu eiga meira samstarf við þau ríki bandalagsins sem vildu treysta varnir þegar bandalagsríkin sjálf teldu ástæðu til. Þannig var staðið með málstað Tyrkja. Það var sagt berum orðum af talsmönnum Tékka að þessi umræða, sérstaklega yfirlýsingar Frakka, hefðu rifið upp djúp og mikil sár í tékkneskri þjóðarsál, sár frá 1968. Það vefst varla fyrir nokkrum manni hér hvað þeir hafa þar átt við eða hvaða atburðir það voru sem urðu aftur ljóslifandi fyrir tékknesku fólki.

En það sem vakti þó mesta athygli mína, herra forseti, og ég vil vekja athygli á eru viðbrögð talsmanna bæði Frakka og Belga eftir að þessi sjónarmið heyrðust frá talsmönnum Pólverja og Tékka. Þeir sögðu sem sé að það væru allar líkur á að sjónarmið talsmanna Pólverja og Tékka gætu staðið í vegi fyrir inngöngu þeirra í Evrópusambandið sem stendur fyrir dyrum. Þá verður að segjast eins og er að þegar bandalagsríki þess eða sambandsríki Evrópusambandsins eru að hóta nýjum sambandsríkjum með þessum hætti hlýt ég að spyrja sjálfan mig og ég vænti þess að það geri fleiri: Hvers konar samkunda er þetta Evrópusamband sem tekur þannig nýjum aðilum? Þau eru ekki orðin sambandsríki en eiga það fram undan. Þá verður þess vænst að þau taki þátt í því að móta sameiginlega utanríkisstefnu sambandsríkjanna. Þau eru ekki orðin skuldbundin til þess enn þá. En þau voru látin heyra það umbúðalaust að fyrst þau voru ekki tilbúin til þess áður en þau yrðu sambandsaðilar væri hugsanlegt að þetta stæði í vegi fyrir inngöngu þeirra í sambandið. Það verður að segjast eins og er að talsmenn þessara tveggja ríkja, sem eru að gerast aðilar að samstarfi vestrænna ríkja, sögðu umbúðalaust og gerðu greinilega heyrinkunnugt að þeir teldu sig þegar hafa fullnægt öllum skilmálum Evrópusambandsins um aðild, þeir hefðu lokið aðildarsamningum þegar fulltrúar Frakka sem telja sig einhvern veginn yfir allar aðrar sambandsþjóðir hafnar sögðu það, ekki aðeins venjulegir talsmenn þeirra heldur sjálfur forseti Frakklands, að þetta yrði nýr ásteytingarsteinn þeirra á inngöngunni í Evrópusambandið.

Mér finnst, herra forseti, að þetta hafi sýnt okkur nýja og fremur óskemmtilega hlið á Evrópusambandinu. Það væri ekki fráleitt að heyra hér hvernig þeir stjórnmálamenn á Íslandi sem hafa barist fyrir því að Ísland verði jafnvel í náinni framtíð Evrópusambandsríki meta þessi viðbrögð Frakka þegar væntanleg sambandsríki vildu ekki hlýða þeim í einu og öllu skilmálalaust.

Ég tel, herra forseti, að þetta sýni okkur fram á að við eigum enga samleið með þessum ríkjum. Það fer ekki saman við hagsmuni okkar að ríki úti í Evrópu mæli fyrir um sameiginlega stefnu okkar ef eða þegar við hugsanlega verðum aðilar að Evrópusambandinu. Við þurfum á okkar eigin öryggisstefnu að halda. Það hefur sýnt sig oft áður að við verðum sjálf að meta okkar eigin öryggishagsmuni. Það hefur líka sýnt sig, ekki síst núna, að við metum þá með allt öðrum hætti heldur en þau ríki sem þarna reyndu að hafa sig mest í frammi, reyndu að koma í veg fyrir að ein af bandalagsþjóðum okkar í Atlantshafsbandalaginu fengi þau varnarviðbrögð og þann viðbúnað sem talsmenn og stjórnmálamenn hennar töldu nauðsyn. Þarna var ekki verið að tala um hernað heldur viðbúnað.

Og ég spyr háttvirt þing: Hvernig meta þeir stjórnmálamenn íslenskir sem hafa mælt fyrir hugsanlegri inngöngu okkar í Evrópusambandið þessi skoðanaskipti, skulum við segja?