Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 16:39:56 (4211)

2003-02-27 16:39:56# 128. lþ. 85.1 fundur 445#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÁRÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[16:39]

Árni R. Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. viðbrögð hennar og afstöðu til þessara skoðanaskipta, eins og ég hef kosið að kalla það. Ég vil geta þess að þingmaðurinn tók fram að hún tilheyrði ekki flokki sem hefði barist fyrir inngöngu Íslands í Evrópusambandið.

Ég verð að viðurkenna, herra forseti, að ég hef skilið stjórnmálaræður Samfylkingarinnar og áður Alþýðuflokksins með þeim hætti að Alþýðuflokkurinn fyrr, og síðar Samfylkingin, vilji berjast fyrir því að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu. Ég verð að segja að ég er ánægður að heyra að svo er ekki. Ég vænti þess að ég hafi misskilið málflutning talsmanna Samfylkingarinnar og að hún berjist ekki lengur fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu.