Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 17:16:59 (4218)

2003-02-27 17:16:59# 128. lþ. 85.1 fundur 445#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[17:16]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg ljóst að um þetta mál er og verður mikil almenn umræða. Það er hins vegar eðlilegt fyrsta stig í þessu máli að utanrrn. ræði það við hv. utanrmn. Það eru að sjálfsögðu ekki lok þeirrar umræðu. Hún mun halda áfram.

Aðeins meira út af því að menn vilji loka þessari umræðu. Ég tek ekki undir það. Ég var á fundinum í Seattle. Það sem gerðist þar var að ákveðin samtök gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til að eyðileggja þann fund. Það var mikið um friðsamleg mótmæli en það var líka allmikið um öfgafull mótmæli þar sem var skemmdarstarfsemi, og fundargestir, ráðherrar, voru truflaðir frá því að geta sótt fundi. Ég var nokkrum sinnum stöðvaður af fólki vegna þess að ég ætlaði mér eingöngu að komast á milli fundarstaðar og hótels míns. Er eðlilegt að fulltrúar annarra ríkja geti ekki sótt fundi fyrir hönd síns lands? Mér finnast það ekki vera eðlileg mótmæli. Ég man eftir því að á fundinum í Seattle var ekkert annað tilboð um fundarstað en í Doha. Það var þannig sem það lá fyrir. Ég tel að það verði að tryggja fulltrúum þjóða að fjalla um þessi mál með eðlilegum hætti. Um það voru allir sammála innan veggja þessarar stofnunar á fundinum í Seattle, bæði fulltrúar ríkisstjórna og fulltrúar almannasamtaka sem þar voru. Ég tel að ríkisstjórnir, þar á meðal ríkisstjórn Íslands, eigi að tryggja þátttöku og samstarf við almannasamtök um þessi mál og það munum við gera.