Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 17:48:46 (4222)

2003-02-27 17:48:46# 128. lþ. 85.1 fundur 445#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[17:48]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Aðeins ein lítil ábending. Það er ekki rétt sem fram kom hjá hæstv. utanrrh. að það hafi verið samhljómur hér í þingsalnum varðandi afstöðuna til Íraks. Hins vegar var það gagnrýnt hve mikill samhljómur hefur oft verið milli hæstv. utanrrh. og og talsmanna ríkisstjórnarinnar og George Bush Bandaríkjaforseta. Þetta hefur verið gagnrýnt.

Hæstv. utanrrh. spyr hvort menn séu virkilega á því að ekki hefði átt að fara með loftárásum á Balkanskagann á sínum tíma. Hann spyr hvort menn geti virkilega hafa verið á móti því að fara með loftárásum á hendur Afgönum á sínum tíma. Ég var þessu andvígur og er það enn á sama hátt og ég teldi ekki ráð að gera árásir á Ísrael. Ég tel heldur ekki rétt að fara með slíkum hernaði á hendur Tsjetsjenum eða þeim ríkjum sem hér var vikið að í ljósi mannréttindabrota, m.a. í ræðu hv. þm. Láru Margrétar Ragnarsdóttur áðan, ágætu yfirliti hennar. Ég tel það ekki vera lausnina. Ég mundi hins vegar styðja kröfur, sem reyndar hafa komið fram, um að sendar verði gæslusveitir á vegum Sameinuðu þjóðanna til Ísraels, og Ísraelsmönnum gert að lúta þeim vilja alþjóðasamfélagsins.

Síðan að lýðræðinu. Staðreyndin er sú að valdamenn heimsins fara ekki að lýðræðislegum vilja ef marka má þau miklu mótmæli, þá miklu öldu sem hefur risið um allan heim gegn hernaðaráformum Bandaríkjastjórnar og reyndar skoðanakannanir, einnig hér á landi, sem sýna að yfirgnæfandi meiri hluti þjóðanna er andvígur þessum hernaðaráformum stjórnvaldanna.