Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 17:54:13 (4225)

2003-02-27 17:54:13# 128. lþ. 85.1 fundur 445#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[17:54]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. svaraði ekki spurningu minni. Hann gerir miklar kröfur til mín og annarra hér í þinginu um að við svörum spurningum hans. En hann svaraði henni ekki með einu einasta orði, þ.e. þeirri grundvallarspurningu í hvaða tilvikum hann telji réttlætanlegt að beita valdi, eins og hann sagði hér í dag að gæti verið réttlætanlegt. Hann segir að það sé rétt að beita öðrum og friðsamlegri leiðum. Hvað þýðir það? Við höfum heyrt í málflutningi frá hv. þm. og flokki hans í ýmsum málum að það eigi að fara aðrar leiðir og það eigi að gera þetta með öðrum hætti án þess að það sé neitt síðan skilgreint hvað það er. (ÖJ: Jú, það hefur verið skilgreint.) Ekkert skilgreint. Og það verður að gera þá kröfu til hv. þm. sem hefur farið mikinn í þessum málum í hvert einasta skipti að hann upplýsi okkur um það, fyrst hann er þeirrar skoðunar að valdbeiting geti verið réttlætanleg, í hvaða tilvikum það geti verið. Ekki síst vegna þess að hann heldur því fram að íslenska ríkisstjórnin og fleiri á hv. Alþingi aðhyllist sérstaklega valdbeitingu þegar skýrt hefur verið tekið fram að það sé neyðarúrræði og eigi ávallt að vera neyðarúrræði. En mér þykir leitt að hv. þm. vill ekki svara þessu. (ÖJ: Ég get ekki svarað þessu.) Þegar menn lenda í mikilli vörn segja þeir ekki neitt og ég lít þá þannig á að hv. þingmaður geti bara ekki svarað þessu og vilji ekki svara því. (ÖJ: Þetta er ómaklegt, ég fæ ekki að taka til máls aftur.)