Norræna ráðherranefndin 2002

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 18:38:39 (4232)

2003-02-27 18:38:39# 128. lþ. 85.2 fundur 572. mál: #A Norræna ráðherranefndin 2002# skýrsl, SJS
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[18:38]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Sem einn af fulltrúum Alþingis í Norðurlandaráði vil ég nota þetta tækifæri til að koma inn á nokkur atriði sem þetta samstarf varða eða þátttöku okkar í því sem ég tel þrátt fyrir allt að sé einn af hornsteinum alþjóðasamvinnu Íslendinga og verði það vonandi um ókomin ár. Ég held þrátt fyrir allt að þó að Norðurlandaráð sé kannski ekki vettvangur heimsatburðanna í þeim skilningi að þar séu teknar hinar stóru ákvarðanir þá er það engu að síður þannig að í ekkert annað alþjóðlegt samstarf hafa Íslendingar sótt meira í gegnum tíðina og ekkert hefur gagnast okkur betur til að byggja okkar brýr út í heiminn en góð samstaða með hinum Norðurlandaþjóðunum og sá margvíslegi ávinningur sem við sækjum okkur sem þjóð, sem þjóðþing og sem stjórnmálaflokkar og einstakir stjórnmálamenn í þetta samstarf. Ég fullyrði það a.m.k. eftir 20 ára reynslu af því að taka þátt í margvíslegri alþjóðasamvinnu fyrir hönd Alþingis og fyrir hönd Íslands að það sem hefur reynst mér drýgst í slíku eru þau sambönd sem ég hef gegnum tíðina myndað við kollega á hinum Norðurlöndunum, þær margvíslegu upplýsingar og það að komast á þann vettvang sem Norðurlandasamstarfið skapar með margvíslegum hætti, ekki bara á Norðurlandaráðsþingum eða skipulögðum fundum og ráðstefnum heldur í gegnum ýmislegt sem þessu samstarfi tengist. Ég fagna því þess vegna sérstaklega að nú hefur enn eina ferðina verið farið í gegnum ákveðna endurskoðun og endurskipulagningu þessa samstarfs með því nýja fyrirkomulagi sem tók gildi í upphafi árs 2002. Þá var á nýjan leik horfið til nefndaskipunar í skipulagi Norðurlandaráðs frá þeirri landfræðilegu uppdeilingu sem byggði á þriggja nefnda kerfi, Norðurlandanefndar, Evrópunefndar og nærsvæðanefndar sem notast var við um nokkurt árabil, í ein fimm, sex ár.

Það sem eftir stendur af þeim breytingum, þó að langmestu leyti megi segja að menn hafi farið til baka til nefndaskipunar á grundvelli faglegrar uppskiptingar, eru þær ákvarðanir sem skildar eru eftir og varða stóraukið vægi hins pólitíska samstarfs, flokkasamstarfsins á vettvangi Norðurlandaráðs. Það hefur tvímælalaust skilað árangri og flestir eru sammála um að sá hluti breytinganna sem farið var út í á þessu árabili hafi verið jákvæður og enginn vilji eða áhugi er á því að breyta því aftur til baka. Þetta hefur að vísu þýtt að vægi landsdeilda hefur minnkað og þess gætir með ýmsum hætti í starfinu að fundir í landsnefndunum eru ekki að sama skapi vettvangur samræmingar og ákvarðanatöku og áður var. Það hefur flust meira yfir í samstarf stjórnmálaflokkanna eða flokkahópanna í Norðurlandaráði.

Í öðru lagi vil ég aðeins nefna viðfangsefni þeirrar nefndar Norðurlandaráðs sem ég sit í núna á grundvelli hins nýja skipulags, þ.e. efnahagsnefndar. Þar gegni ég varaformennsku. Ég var áður í Evrópunefnd. Efnahagsnefndin fer með marga mikilvæga málaflokka, kannski minnst efnahagsmál eins og þó mætti ráða af nafninu heldur eru þar til að mynda vinnumarkaðsmál, byggðamál og margir fleiri málaflokkar sem varða okkur miklu og eðlilegt er að Íslendingar leggi rækt við í þátttöku sinni í starfinu. Þar vil ég sérstaklega nefna vinnumarkaðsmálin og samstarf við Eystrasaltsríkin á því sviði. Að því hefur talsvert verið unnið innan efnahagsnefndar eða efnahags- og viðskiptanefndar og verður gert áfram því nú hefur nýlega verið ákveðið að setja á laggirnar starfshóp sem þegar hefur hafið störf og ætlar sér að byggja upp sambönd við Eystrasaltsríkin og fara, má segja, í ákveðna brúargerð milli aðila vinnumarkaðarins á Norðurlöndunum annars vegar og í Eystrasaltsríkjunum hins vegar. Þetta er mikilvægt ekki síst, herra forseti, vegna þess að frá og með næsta ári verða Eystrasaltsríkin aðilar að sameiginlegum innri vinnumarkaði hins Evrópska efnahagssvæðis og Evrópusambandsins og munu einkum og sér í lagi beina sjónum sínum að Norðurlöndum vegna þeirra góðu tengsla og þeirrar miklu virðingar sem Norðurlöndin njóta í þessum löndum. Nýskipaður starfshópur er einmitt að halda í ferðalag til Eistlands og Litháen þar sem ætlunin er að funda með aðilum vinnumarkaðarins og síðan ræða málin við sömu aðila á Norðurlöndunum. Þar eru það kannski einkum Danir, Svíar og Finnar sem þegar eru í margvíslegu samstarfi við Eystrasaltsríkin og eru að reyna að aðstoða við að koma á skipulögðu starfi á þessum vettvangi. En tæpast er hægt að segja að það hafi verið til staðar í Eystrasaltsríkjunum fram undir þetta. Til að mynda er þátttaka í verkalýðsfélögum lítil og samtök vinnuveitenda eða atvinnulífsins eru þar afar veik og jafnvel tæpast til staðar í sumum tilvikum. Þessu þarf að sjálfsögðu að breyta því enginn vafi leikur á því að farsæl þátttaka eða innkoma Eystrasaltsríkjanna inn á þennan stóra sameiginlega vinnumarkað er mikið bundin því að þar takist að byggja upp skipulagt starf að þessu leyti.

Herra forseti. Um byggðamálin væri líka freistandi að fara nokkrum orðum. Þau heyra undir Evrópunefnd. Því miður verður að segjast eins og er að þar skortir nokkuð upp á að sú samstaða ríki með Norðurlöndunum sem æskileg væri og þá sérstaklega hvað varðar það viðfangsefni að Norðurlöndin gæti hagsmuna sinna gagnvart breytingum á reglum Evrópusambandsins um byggðamál, byggðastyrki og annað í þeim dúr því það varðar Norðurlöndin öll, aðildarríkin að sjálfsögðu gegnum aðildina en líka Noreg og Ísland í gegnum aðild að Evrópska efnahagssvæðinu og þátttöku í byggðaverkefnum Evrópusambandsins. Þar er mjög mikilvægt verkefni að tryggja að þær reglur sem þarna verða mótaðar og settar á næstu árum, en þær eru til endurskoðunar, rúmi svigrúm til handa Norðurlöndnum til að glíma við aðstæður á sínum svæðum, t.d. hinum hánorrænu svæðum Norðurlandanna þar sem augljóslega ríkja aðrar aðstæður og þörfin fyrir ýmiss konar stjórnvaldsaðgerðir til stuðnings atvinnulífi og búsetu er mikil.

Það síðasta sem ég vil svo nefna, herra forseti, eru óskir Færeyinga um sjálfstæða aðild að Norðurlandaráði. Ég leyfi mér að trúa því að á því leiki ekki nokkur vafi að Íslendingar styðji með ráðum og dáð þessar óskir Færeyinga. Fróðlegt væri að heyra hæstv. ráðherra tjá sig aðeins um það hér hvort ekki sé ljóst að samstarfsráðherra Íslands, sem og þá forsrh. Íslands sem er auðvitað í forsvari fyrir Ísland hvað varðar aðild að ráðherraráðinu og norræna samvinnan heyrir stjórnskipulega undir, styðji það og beiti sér fyrir því að aðrar þjóðir taki vel í þær óskir Færeyinga að þeir fái núna með vaxandi sjálfstæði sínu sjálfstæða fullgilda aðild að Norðurlandaráði og hætti að þurfa að senda fulltrúa sína á þingið í gegnum sendinefnd Dana. Ég held að það verði tvímælalaust til góðs og muni styrkja samstarfið að fá þar sjötta ríkið með þeim hætti sem sjálfstæðan aðila inn og það er að mínu mati vel tímabært eins og mál hafa þróast í Færeyjum og sjálfsagt þá aðeins tímaspursmál í framhaldinu hvenær Grænlendingar og einnig Álandseyingar óska eftir sams konar sjálfstæðri aðild að Norðurlandaráði. Ekki síst ættum við Íslendingar að styðja þetta og fagna þessu því það er augljóst að hin vestnorræna vídd í norrænu samstarfi styrkist við það að fá sjálfstæðan þátttakanda inn á þennan vettvang eins og Færeyingar vonandi verða innan skamms. Færeyska lögþingið er með þetta mál til umfjöllunar og, ef ég veit rétt, afgreiðir það innan fárra daga. Ekki veit ég annað en þar verði full samstaða um þessa kröfu og hún verði þar af leiðandi í beinu framhaldi, væntanlega á næstu vikum, lögð formlega fram sem ósk Færeyinga og kemur þá til umfjöllunar og þá skiptir miklu máli finnst mér, herra forseti, að fyrir liggi ótvíræður stuðningur Íslands.