Norræna ráðherranefndin 2002

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 18:55:40 (4234)

2003-02-27 18:55:40# 128. lþ. 85.2 fundur 572. mál: #A Norræna ráðherranefndin 2002# skýrsl, umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[18:55]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég fagna þeirri ágætu umræðu sem hér hefur farið fram um málefni norræns samstarfs. Komið hefur verið inn á mörg mál. Ég ætla ekki að gera þeim öllum skil. Menn hafa nokkuð komið inn í strúktúr samstarfsins. Eins og hér hefur réttilega verið rakið var honum breytt í ráðinu árið 1995. Það var mikil umræða um breytingarnar á tíma og ég lýsti ákveðnum efasemdum um þær breytingar og tel að mikið af þeim efasemdum hafi verið á rökum reistar. Það er almenn ánægja með að við höfum gengið meira í átt að gamla fyrirkomulaginu hin seinni ár frá því sem var strax eftir 1995.

Hér hefur líka verið komið inn á hve mikilvægt þetta starf sé. Maður þreytist aldrei á að lýsa því. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon lýsti því ágætlega með svipuðum hætti og ég upplifi þetta samstarf. Það er mjög mikilvægt. Það myndast mikil tengsl á milli manna og maður fær góðar upplýsingar um það sem á sér stað í hinum löndunum. Við berum mikið úr býtum í samstarfinu af því að menn ná betur saman en að vinna hver í sínu lagi þegar um sameiginleg hagsmunamál er að ræða.

Í ræðu sinni rakti hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir sérstaklega starfsemi Norræna menningarsjóðsins sem er mjög mikilvægur hluti norræna samstarfsins. Það má segja að hann sé þetta gamla, mikilvæga norræna samstarf. Þessi sjóður hefur gegnt gífurlega miklu hlutverki í gegnum tíðina og gerir enn. Hún fagnaði því að samstarfsráðherrarnir hefðu skýrt réttarstöðu sjóðsins. Það er mjög ánægjulegt að það verkefni er að baki. Það var ekki mjög einfalt að skoða allar lagalegar hliðar þess máls áður en við gátum tekið af skarið. Það er alveg ljóst að í heildina eru allir sáttir við þær breytingar sem gerðar voru. Ég heyrði á máli hennar að þjónusta sjóðsins hefði eflst mjög mikið með því að miklu fleiri möguleikar eru á að hitta á réttan tíma varðandi umsóknir fyrir minni styrkbeiðnir. Það var einmitt svolítið gagnrýnt á sínum tíma að það var einungis tvisvar sinnum á ári sem sótt var um styrki í gamla kerfinu en nú gefst færi á því sex sinnum á ári. Ég mun færa þakkir eins og hún bað mig fyrir til norrænu samstarfsráðherranna varðandi eflingu Norræna menningarsjóðsins.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon spurði mig nokkuð beint um afstöðu mína til hugsanlegrar fullrar aðildar Færeyinga að ráðinu. Það er heldur flókið að svara því á þessu stigi, finnst mér. Maður veit af áhuga Færeyinga á að fá betri stöðu innan norræna samstarfsins en þeir hafa í dag. Maður hefur bæði heyrt það bæði hjá Anfinni Kallsberg, lögmanni Færeyja, og Høgna Hoydal samstarfsráðherra þeirra. Hins vegar hefur formleg umsókn Færeyinga ekki komið fram enn sem komið. Hins vegar hefur hún verið boðuð, að hún muni koma. Ég tel mikilvægt að þegar slík formleg umsókn berst verði allir kostir og gallar skoðaðir eftir því hver nálgun Færeyinga verður í þeirri beiðni. Það er einnig ljóst að líklega þarf að skoða aðkomu annarra að starfinu, hugsanlega Grænlendinga og Álendinga. Það er spurning hvort Færeyingar, komi þeir fram með formlega beiðni, biðji um miklar breytingar á aðkomu sinni að ráðinu. Spurningin er hvort breytingar geri það að verkum að þeir fái fulla aðild eða fulla þátttöku líkt og um sjálfstætt ríki væri að ræða eða hvort þeir biðja um aðra möguleika. Mér finnst ekki alveg tímabært að kveða upp úr um það á þessu stigi. En ég skil auðvitað óskir Færeyinga. Þeir hafa átt í mikilli sjálfstæðisbaráttu. Auðvitað er eðlilegt að það endurspeglist í umræðunni um skipulagið innan Norðurlandaráðs og norrænu ráðherranefndarinnar.

Að öðru leyti, virðulegi forseti, vil ég þakka fyrir þessar ágætu umræður sem hér hafa farið fram. Ég tel þær endurspegla það ágæta samstarf sem verið hefur innan norræna samstarfsins. Ég vil taka undir það sem fram kom í umræðunum áðan, að íslensku þingmennirnir í norræna samstarfinu eru mjög virkir og leggja mikið á sig til að halda uppi merki þjóðar okkar í norrænu samstarfi og draga þar hvergi af sér.