Upphæð atvinnuleysisbóta

Mánudaginn 03. mars 2003, kl. 15:14:31 (4250)

2003-03-03 15:14:31# 128. lþ. 86.1 fundur 454#B upphæð atvinnuleysisbóta# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 128. lþ.

[15:14]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Eins og kunnugt er hefur atvinnuleysi því miður farið vaxandi undanfarna mánuði og er nú meira en það hefur verið um nokkurt árabil. Það hefur dregið athyglina að upphæð atvinnuleysisbóta sem eru, þingmönnum til upplýsingar ef þeir hafa það ekki á hreinu fyrir, rétt um 77 þús. kr. á mánuði. Af því er mönnum ætlað að lifa sem missa atvinnuna, jafnvel fólki sem hverfur úr vel launuðum störfum.

Á undanförnum mánuðum og missirum hefur ítrekað verið kvartað yfir því að upphæðir atvinnuleysisbóta hafa engan veginn fylgt verðlagsþróun. Atvinnuleysisbætur voru eins og elli- og örorkulífeyrir teknar úr sambandi við launaþróun í landinu á ákveðnu árabili og hafa síðan hvergi nærri haldið í við þróun verðlags og framfærslukostnaðar í landinu. Það hygg ég að sé óumdeilt. Þess vegna var visslega ánægjulegt að heyra af því að á flokksþingi framsóknarmanna um næstsíðastliðna helgi hafi þeir allt í einu munað eftir þessum hlutum og ályktað þar um. Undir liðnum fjölskyldumál er um þetta fjallað með þessum hætti, með leyfi forseta:

,,Hækka ber atvinnuleysisbætur og stefna að því að þær verði ekki lægri en lægstu launataxtar.``

Það sem vekur auðvitað sérstaka athygli, herra forseti, er að hér talar flokkur félmrh. Hér talar sá flokkur sem hefur farið með félmrn. í átta ár og haft nægan tíma til að hrinda þessum hlutum í framkvæmd ef vilji væri til staðar, ef þetta væri meira en orðin tóm. Ég vil því spyrja hæstv. félmrh. Pál Pétursson: Verða atvinnuleysisbætur á næstunni hækkaðar um 16--17 þús. kr., úr þessum 77 þús. í um 93 þús. kr. sem eru lægstu útgreidd laun samkvæmt samningum? Verður það gert fyrir kosningar eða er þetta enn eitt innstæðulaust eða endurunnið kosningaloforðið?