Álverksmiðja í Reyðarfirði

Mánudaginn 03. mars 2003, kl. 15:47:22 (4272)

2003-03-03 15:47:22# 128. lþ. 86.6 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, HjÁ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 128. lþ.

[15:47]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Fá mál hafa hlotið jafnítarlega og jafnmikla umfjöllun eins og það mál sem hér er til umræðu. Þetta er mál sem hefur verið mikið og vel unnið af hv. Alþingi og nú liggur niðurstaða fyrir. Það er alveg ljóst að með þessu máli, álveri við Reyðarfjörð og Kárahnjúkavirkjun sem tengist þessu, eru færðar óhjákvæmilegar fórnir eins og alls staðar þar sem maðurinn haslar sér völl.

En ávinningurinn er líka mikill. Málið mun styrkja stoðir efnahagslífsins varanlega. Það mun skapa fjölmörg störf í íslensku atvinnulífi. Það mun auka útflutningsverðmæti þjóðarinnar. Það mun styrkja byggð í landinu og það mun renna stoðum undir íslenska velferðarkerfið. Því segi ég já.