Álverksmiðja í Reyðarfirði

Mánudaginn 03. mars 2003, kl. 15:51:02 (4274)

2003-03-03 15:51:02# 128. lþ. 86.6 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 128. lþ.

[15:51]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Þessu máli er ekki lokið. Þetta er 2. umr. málsins þótt ég efist ekki um að þeir séu farnir að draga tappana úr kampavínsflöskunum hjá Alcoa til að skála fyrir íslenskum hjálparhellum sínum.

Þessi grein frv. sem við erum að ganga til atkvæða um núna fjallar um skattaívilnanir í þágu Alcoa en það mál er sérstaklega til skoðunar hjá Eftirlitsstofnuninni, ESA, og þar er verið að kanna lögmæti þess að ríkisstjórnin taki Alcoa undir handarjaðar íslenskra skattgreiðenda.

Alþingi Íslendinga hefur verið meinað um upplýsingar um hvað menn eru pukrast með í Brussel. Við fáum ekki að vita það. Okkur er sagt í efh. og viðskn. að málið sé á svo viðkvæmu stigi að Alþingi sé ekki trúandi fyrir þessum upplýsingum. Ja, þetta er nokkuð sem ætti að verða lýðræðislega þenkjandi fólki til umhugsunar. Hitt er ljóst að hér er verið að festa í lög heimild um að skattar eða gjöld verði ekki lögð á raforkunotkun félagsins (Forseti hringir.) og útblástur lofttegunda eða aðra losun úrgangsefna nema slíkir skattar og gjöld séu lögð með almennum hætti á öll önnur fyrirtæki (Forseti hringir.) hér á landi. Hér er verið að útiloka að sértækir mengunarskattar verði lagðir á stóriðjufyrirtækið.

(Forseti (HBl): Ég vil vekja athygli hv. þingmanns á því að hv. þm. hafa eina mínútu til að gera grein fyrir atkvæði sínu og vil óska eftir því að hann hafi það í huga. Jafnframt vil ég biðja menn að gæta háttvísi.)