Álverksmiðja í Reyðarfirði

Mánudaginn 03. mars 2003, kl. 15:59:55 (4279)

2003-03-03 15:59:55# 128. lþ. 86.6 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 128. lþ.

[15:59]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þessi málsgrein 6. gr. er auðvitað aðeins eitt af mjög mörgum fráleitum undanþáguákvæðum sem þetta dekurfyrirtæki er að fá hér sem nánast er undanþegið íslenskum skattaákvæðum að öllu leyti með sérákvæðum þótt látið sé heita svo að um það eigi að gilda íslensk skattalög. En síðan er það talið upp í ekki færri en 12 tölusettum liðum og nokkrum málsgreinum í viðbót að hvaða leyti einmitt þessi sömu íslensku skattalög skuli ekki gilda.

Það má segja út af fyrir sig að frá umhverfislegum sjónarhóli séð bíti það höfuðið af skömminni að þetta mesta mengunarslys Íslandssögunnar sem er í uppsiglingu eigi líka að hafa sérstök forréttindi hvað það varðar að ekki verði hægt að koma á það mengunarsköttum. Þess vegna hefði maður auðvitað reiknað með því að þeir sem eru andvígir þessu forréttindaákvæði af umhverfisástæðum, eins og síðasti ræðumaður, greiddu þá atkvæði gegn málinu en því er ekki að heilsa, því miður, herra forseti.