Álverksmiðja í Reyðarfirði

Mánudaginn 03. mars 2003, kl. 16:02:46 (4282)

2003-03-03 16:02:46# 128. lþ. 86.6 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, SvanJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 128. lþ.

[16:02]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Hún er orðin nokkuð flókin atkvæðagreiðslan um 6. gr. en ég vil að það komi fram að þó að við þingmenn Samfylkingarinnar styðjum þetta mál þá höfum við ýmislegt við þessa grein að athuga eins og hér hefur þegar komið fram. Við teljum fullkomlega óeðlilegt að þó að stjórnvöld vilji laða hér að fjárfestingu sé sá háttur hafður á að semja við fyrirtækin hvert um sig um ýmiss konar afslætti frá því umhverfi sem önnur fyrirtæki þurfa að búa við, þar með töldum skattareglum sem öðrum fyrirtækjum hér er ætlað að lifa við.

Ég vil af þessu tilefni, herra forseti, minna á margflutt frumvarp Margrétar Frímannsdóttur um lækkun og afnám stimpilgjalda. Ég vil minna á þáltill. okkar um bætta samkeppnisstöðu atvinnulífsins.

Herra forseti. Mér finnst þetta frv. og umfjöllun um það hafa sýnt okkur mjög vel að skapa þarf almennar reglur, gegnsæjar reglur sem byggja á jafnræði og gera öllum fyrirtækjum í landinu jafnt undir höfði. Þessi vinnubrögð frá deginum í dag verða hluti af fortíðinni (Forseti hringir.) en ekki til frambúðar.