Álverksmiðja í Reyðarfirði

Mánudaginn 03. mars 2003, kl. 16:05:27 (4284)

2003-03-03 16:05:27# 128. lþ. 86.6 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 128. lþ.

[16:05]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég tel að 10. gr. frv. sé býsna dæmigerð fyrir það sem Alþingi er boðið upp á við afgreiðslu þessa máls. Sjaldan hefur maður fundið brennandi sviðalyktina af færibandinu jafnsterkt og í þessu máli.

Herra forseti, 10. gr. er þannig úr garði gerð að það er tiltölulega opin framtalsheimild á samningunum til annarra ótiltekinna aðila með skilyrðunum sem að sögn eiga að koma fram í samningum. Þegar flett er upp á skýringum við 10. gr. segir hún það sama og lagagreinin sjálf, þ.e. í greininni kemur fram að semja megi um að félaginu og eigendum sé heimilt að framselja samninginn við tilteknar afmarkaðar aðstæður. Punktur. Að sjálfsögðu á Alþingi að skrifa upp á að gæludýrið Alcoa geti framselt í framtíðinni einhvern tíma ef svo ber undir allt öðrum óskyldum aðila samningana ef því ber svo við að horfa. Löggjöfin er þannig að öllu leyti klæðskerasaumuð utan um þau forréttindi sem þessi erlendi auðhringur á að fá hér í landinu.