Lögmenn

Mánudaginn 03. mars 2003, kl. 16:27:44 (4292)

2003-03-03 16:27:44# 128. lþ. 86.7 fundur 612. mál: #A lögmenn# (EES-reglur, námskröfur) frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 128. lþ.

[16:27]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að ég hafi svarað þessari spurningu þingmannsins. Ég benti á það í seinni ræðu minni að nú sé í raun og veru í fyrsta sinn fjallað efnislega um nám þeirra sem sækjast eftir lögmannsréttindum og það er gert í því frv. sem hér liggur fyrir. Það er tekið sérstaklega fram í athugasemdum með 4. gr. frv. og ég bendi hv. þingmanni á að þar er t.d. vísað til þess hvað felist í orðunum ,,fullnaðarnám í lögfræði``. Ég tel það fullnægjandi sem fram kemur í þessu frv. En að sjálfsögðu geri ég mér grein fyrir því að þessi tillaga í frv. hefur vakið upp miklar umræður. Sitt sýnist hverjum og þess vegna tel ég sjálfsagt og eðlilegt að hv. þingmenn fjalli vel um málið í allshn.

Ég ítreka þau orð mín að ég tel að í þessu frv. sé verið að tryggja það að þeir sem útskrifast úr námi í lögfræði í öðrum skólum en Háskóla Íslands eigi sömu möguleika á því að öðlast þessi mikilvægu atvinnuréttindi, þ.e. að gerast lögmenn, og að þetta mál snúist því fyrst og fremst um jafnræði.