Stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins

Mánudaginn 03. mars 2003, kl. 17:00:14 (4296)

2003-03-03 17:00:14# 128. lþ. 86.11 fundur 648. mál: #A stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins# (sala á eignarhluta ríkissjóðs) frv. 62/2003, iðnrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 128. lþ.

[17:00]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 28/1993, um stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins. Frumvarpið er stutt og hnitmiðað og mælir eingöngu fyrir um heimild fyrir iðnrh. til að selja allt hlutafé ríkissjóðs í Sementsverksmiðjunni hf.

Mikið hefur verið rætt um erfiða stöðu Sementsverksmiðjunnar á undanförnum missirum, m.a. hér á hv. Alþingi. Þessi erfiða staða kemur einkum til af tvennu. Í fyrsta lagi hefur verið almennur samdráttur í sölu sements á undanförnum missirum, og í öðru lagi hefur innflutningur á sementi frá Danmörku veikt stöðu Sementsverksmiðjunnar. Þrátt fyrir hagræðingaraðgerðir hefur ekki tekist að bæta stöðu verksmiðjunnar og hefur hún verið rekin með umtalsverðu tapi sl. tvö ár.

Fyrir liggur að verksmiðjan þarf að bregðast við þessum mikla taprekstri. Hún þarf á auknu rekstrarfé að halda til að geta nýtt þau tækifæri sem bjóðast á sementsmarkaði. Eðlilegt er að einkaaðilar komi við þessar aðstæður að rekstri verksmiðjunnar. Nokkrir aðilar hafa sett sig í samband við ráðuneytið og gert grein fyrir áhuga sínum á verksmiðjunni.

Markmið mitt er að tryggja áframhaldandi framleiðslu á sementi hér á landi og tryggja þannig sem best samkeppni á þessu sviði og iðnaðarhagsmuni okkar Íslendinga. Hvort rekstrarforsendur séu til áframhaldandi sementsframleiðslu hér á landi er óvíst, en nauðsynlegt er að látið verði á það reyna. Með frv. og fyrirhugaðri sölu er leitast við að finna fjárfesta sem munu tryggja samkeppnisstöðu verksmiðjunnar og tryggja samkeppni á sementsmarkaði.

Næstu skref í þessu máli er að auglýsa eftir áhugasömum fjárfestum til að taka við rekstri Sementsverksmiðjunnar hf. Ráðgert er að velja að því loknu einn eða fleiri fjárfesta til frekari viðræðna um kaup á hlutafé verksmiðjunnar. Ég vænti þess að sá ferill taki sem skemmstan tíma þannig að framtíð verksmiðjunnar verði ljós sem allra fyrst.

Herra forseti. Í athugasemdum með frv. er gerð stuttlega grein fyrir sögu Sementsverksmiðjunnar sem spannar á fimmta áratug. Saga verksmiðjunnar er samofin íslenskri byggingarsögu síðustu hálfa öld og hefur verksmiðjan gegnt mjög þýðingarmiklu hlutverki. Þó hefur rekstur verksmiðjunnar oft á tíðum verið erfiður.

Eitt af þeim tækifærum sem blasa við Sementsverksmiðjunni er eyðing úrgangsefna. Á síðustu árum hefur Sementsverksmiðjan hf. tekið að sér að eyða og þar með endurnýta nær allan olíuúrgang sem fellur til í landinu. Jafnframt hefur verið farið út í að eyða ýmsum öðrum efnum, svo sem leysiefnum og framköllunarvökva. Hægt er að hita ofn verksmiðjunnar í 1.450°C sem veldur því að efnin brotna niður og valda ekki mengun eða hættu fyrir umhverfið. Flestar sementsverksmiðjur á Vesturlöndum taka nú að sér eyðingu og endurnýtingu úrgangs. Við áframhaldandi framleiðslu sements hér á landi má því búast við að hlutverk verksmiðjunnar við endurvinnslu úrgangsefna verði æ mikilvægara. Má í því sambandi nefna að ekki verður leyft í nánustu framtíð að farga með urðun t.d. hjólbörðum og baggaplasti eins og nú er gert. Í þessu eru fólgin tækifæri fyrir verksmiðjuna.

Í athugasemdum með frv. er einnig greint frá ágreiningi Sementsverksmiðjunnar og Aalborg Portland. Innflutningur á sementi af hálfu Aalborg Portland hófst á árinu 2000 og er áætlað að markaðshlutdeild fyrirtækisins sé í dag um 25%. Aalborg Portland hefur nú reist tvö 5.000 tonna síló í Helguvík og gæti það fyrirtæki annað öllum íslenska markaðnum miðað við núverandi aðstæður.

Lækkun sementsverðs hefur haft í för með sér erfiðleika í rekstri Sementsverksmiðjunnar, auk þess sem sala á sementi hefur almennt dregist saman um 30--40% á síðustu missirum.

Sementsverksmiðjan hf. hefur haldið því fram að samkeppnin á markaðinum sé óeðlileg og að Aalborg Portland stundi undirboð. Rökin eru þau að verð á sementi á Íslandi sé nú sambærilegt við það sem gerist víðast hvar í Evrópu, m.a. í Danmörku. Fjarlægðarvernd Sementsverksmiðjunnar hf. í formi flutningskostnaðar sem fram til ársins 2000 hafði komið í veg fyrir innflutning virðist því ekki vera til staðar lengur. Þetta telur Sementsverksmiðjan hf. að stangist á við samkeppnislög þar sem keppinauturinn hefði ekki bolmagn til að halda úti slíkri samkeppni nema í krafti stærðar og mikillar arðsemi á heimamarkaði. Aalborg Portland neitar þessu hins vegar og bendir á að verð frá Danmörku sé það sama til Íslands og til annarra útflutningslanda.

Herra forseti. Þetta frv. kemur með stuttum fyrirvara inn á Alþingi. Aðstæður eru fljótar að breytast og nauðsynlegt að taka mið af þeim. Ég met það svo að mjög mikilvægt sé að hafa þessa heimild til sölu til að geta brugðist fljótt við og tryggt með því samkeppnisstöðu verksmiðjunnar eins og ég hef lýst hér á undan.

Ég legg til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. iðnn. að lokinni þessari umræðu.