Stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins

Mánudaginn 03. mars 2003, kl. 17:05:37 (4297)

2003-03-03 17:05:37# 128. lþ. 86.11 fundur 648. mál: #A stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins# (sala á eignarhluta ríkissjóðs) frv. 62/2003, GE
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 128. lþ.

[17:05]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Það frv. sem við ræðum nú lýtur að því að ríkið selji eignarhlut sinn í Sementsverksmiðjunni hf. og breyti því fyrirtæki þar með í einkafyrirtæki og ríkið losi sig úr allri ábyrgð varðandi áframhaldandi starfsemi þess.

Sementsverksmiðjan hf. var byggð á árunum 1955--1958 og sett í gang í lok eða síðla árs 1958. Síðan hafa orðið stöðugar tæknilegar framfarir hvað varðar gæði, umhverfismál sementsframleiðslunnar og aðbúnað þess fólks sem við framleiðsluna vinnur. Sementsverksmiðjan var byggð af því menn fundu hráefni til framleiðslu sements hér á landi. Aðeins þurfti innflutning á gifsi og sérframleiddum vökvum eins og hraðsementsvökva til dæmis.

Bygging Sementsverksmiðjunnar var sem sagt ákveðin af því menn sáu af því ávinning. Í ljós hefur komið að Sementsverksmiðjan hefur gefið Íslendingum mikinn ávinning. Það er auðvitað hagfellt fyrir land og þjóð að nýta innlend hráefni, innlendan vinnukraft og spara gjaldeyri. Þetta voru þau sjónarmið sem réðu í upphafi. Þá má geta þess að á þeim tíma sem liðinn er hafa orðið miklar framfarir. Erlendis hafa verið settar upp verksmiðjur sem framleiða margfalt magn á sólarhring af sementsgjalli á við það sem hægt er að gera hér, allt að tíföldu magni þess sem framleitt er hér á sólarhring úr einum ofni og þar í stórum verksmiðjum er verið að reka þrjá til fjóra ofna, þannig að sementsgjallsframleiðslan er kannski átta til tólf þúsund tonn á sólarhring. Menn geta því áttað sig á að 300 tonna framleiðsla hlýtur að vera dýrari á einingu, þannig að við mikið er að slást. En þar njótum við fjarlægðar að sjálfsögðu.

Erlendis eru nýttar miklu fleiri tegundir af orkuríkum brennsluefnum en hér er gert sem eru túlkuð sem úrgangsefni og verksmiðjurnar fá greitt fyrir að eyða. Þetta er auðvitað einn hængur á því að menn hafa ekki fylgst nægilega með hvaða möguleikar eru til þess að styrkja fyrirtækið í sessi.

Sementsframleiðslan hér í dag stenst fullkomlega að gæðum og hefur gert miðað við erlenda framleiðslu og er hún með því besta sem þekkist í heiminum í dag. Það get ég fullyrt hér vegna þess að ég þekki það, enda er framleiðslan eftir fyrir fram ákveðnum stöðlum, framleiðslan vöktuð af vönduðu fagfólki sem margt hvert hefur áratugareynslu og þekkingu við störf sín. Í starfsfólki Sementsverksmiðjunnar er fólginn mikill mannauður sem er byggður á reynslu, þekkingu og þróun. Og þau verðmæti verða líklega seint metin til fjár. Þau atriði sem ég nefni núna set ég fram sem umhugsunarefni í tengslum við það frv. sem hér liggur fyrir til umræðu þegar verið er að velta fyrir sér að selja fyrirtækið.

En ég vil, virðulegur forseti, í upphafi þakka hæstv. iðnrh. fyrir að hafa byrjað á opinberri kynningu á þessu máli með því að boða til fundar með starfsmönnum Sementsverksmiðjunnar og einnig kynnti ráðherra málið sérstaklega fyrir þingmönnum stjórnarandstöðunnar áður en málið var lagt fram hér á Alþingi.

Mér er ljóst að Sementsverksmiðjan hf. er komin í samkeppnisrekstur. Það hefur einnig legið fyrir, virðulegur forseti, að ég lagðist mjög hart gegn sölu á fyrirtækinu meðan engin samkeppni var á sölu sements hér á landi og var einn af þeim sem ég tel hafa komið í veg fyrir að leyfð hafi verið hugmynd að stærri hlut en 25% í sölu Sementsverksmiðjunnar.

Málin eru þó ekki þannig að ég telji að afskipti ríkisins hafi alltaf verið fyrirtækinu til farsældar í gegnum árin. Það er e.t.v. rétt á þessari stundu að geta þess að ríkissjóður hefur aldrei lagt krónu til Sementsverksmiðjunnar í gegnum árin, aðeins veitt ábyrgð í upphafi sem þá nam 300 þús. kr. fyrir einum víxli ef ég man rétt. Fyrirtækið hefur því séð um sína hluti þrátt fyrir afskipti ríkisvaldsins af verðlagsmálum, sem oft og tíðum bitnuðu á fyrirtækinu. En rétt er að geta þess að það hefur ekki verið á þann hátt síðastliðin ár.

Í kjölfar stórframkvæmda á Íslandi hafa erlendir aðilar sem framleiða sement horft í æ ríkari mæli til innflutnings og sölu á sementi hér á landi. Mér er þetta persónulega kunnugt, því aðilar hafa haft samband við undirritaðan til að fá upplýsingar um ýmis atriði, aðilar sem ég kynntist meðan ég var starfsmaður í fyrirtækinu, aðilar frá erlendum verksmiðjum sem voru þó nokkuð valdamiklir og höfðu ýmislegt í hendi sér varðandi þetta. Og það má tilnefna í því sambandi Þjóðverja, Breta, Spánverja og e.t.v. fleiri. En það er athyglisvert að þeir sem riðu á vaðið varðandi innflutning á sementi voru aðilar í eigu helsta samstarfsaðila Sementsverksmiðjunnar, F.L. Smidt, sem hefur í gegnum árin verið helsti samstarfsaðilinn og á Aalborg Portland A/S. Það sem er merkilegt við þetta er að þeir sem eiga Aalborg Portland þekkja og vita nánast allt um afkastagetu og möguleika fyrirtækisins og þeir eru líka helstu tæknilegu þjónustuaðilar og ráðgjafar Sementsverksmiðjunnar.

Virðulegur forseti. Ástæða er til að spyrja hæstv. iðnrh. hvort málið hafi verið skoðað út frá þeim grundvelli að aðalráðgjafi og þjónustuaðili er eigandi að fyrirtækinu sem að mínu mati er að knýja þetta fyrirtæki í þrot, Sementsverksmiðjuna hf.

Það er merkilegt að danska sementið skuli vera selt á lægra verði á Íslandi en í Færeyjum, sem nemur verulegum mun. Sement frá Aalborg Portland er flutt með sama skipi til Færeyja og til Íslands. Það landar í Færeyjum og síðan á Íslandi. Munurinn er bara sá að verðið er langtum lægra hér á landi en í Færeyjum. Og ég ítreka þá skoðun mína að verið sé að knýja Sementsverksmiðjuna í þrot og síðan ætlaði eða ætlar Aalborg Portland að yfirtaka sementsmarkaðinn með þeim afleiðingum að sementsverð verður hækkað upp fyrir Færeyjaverðið, sem ég vil kalla.

Í þessari stöðu, virðulegur forseti, tel ég að einkaaðilar séu betur til þess fallnir að berjast við þessar aðstæður og af þeirri ástæðu mun ég skoða það mjög vel hvort ég get ekki fallist á að látið verði á það reyna hvort hér á Íslandi séu til staðar fyrirtæki sem sjái sér hag í að kaupa, eiga og reka Sementsverksmiðjuna í því samkeppnisumhverfi sem hér er. Ég tel þó að huga verði mjög vandlega að því hvernig það verði gert.

Verður þess gætt að erlendir auðhringar í sementsgeiranum standi ekki að baki kaupunum og þeir væru þá þannig að koma inn til að kaupa fyrirtækið beinlínis til að leggja þessa íslensku starfsemi af? Verður þess gætt í samningum að sementsframleiðslu verði haldið áfram í Sementsverksmiðjunni úr íslenskum hráefnum? Hvernig verður málum háttað gagnvart starfsfólki fyrirtækisins? Það er auðvitað erfitt að svara þessu. Hvernig verður sá mannauður metinn sem felst í starfsfólki fyrirtækisins?

[17:15]

Auðvitað er allt þetta meira og minna óljóst og ástæða til að hafa þungar áhyggjur af þessu. Rétt er að spyrja hvernig verði gengið frá málum við Akraneskaupstað sem hefur lagt til landið undir verksmiðjuna. Þetta eru allt þættir sem fara þarf mjög vandlega í gegnum.

Það verður að segjast eins og er, að ég hef staðið gáttaður yfir aðdraganda þessa máls. Hann er orðinn svo langur. Mér virðist þetta allt hafa gengið fyrir sig með hraða snigilsins þar til nú á síðustu dögum að við höfum þurft að vinna þetta mál með miklu hraði. Mér er ljóst að allt það kæruferli sem átt hefur sér stað á undanförnum mánuðum og árum hefur gengið mjög hægt fyrir sig og þau svör sem menn hafa leitað eftir hafa ekki fengist.

Sem starfsmaður Sementsverksmiðjunnar um 30 ára skeið, þar af um 18 mánaða skeið hjá Aalborg Portland í tengslum við starf mitt, hef ég mjög miklar áhyggjur af þessu. Ég treysti því að með þessu megi losa fyrirtækið úr þeirri úlfakreppu sem það er í og það varð mér til mikillar ánægju að eftir margra mánaða stopp rauk úr sementsskorsteininum nú í morgun í fyrsta skipti í þrjá mánuði. Það var verið að setja í gang sem segir mér auðvitað að menn ætla að takast á við það sem fram undan er, bæði starfsmenn fyrirtækisins og svo munu vonandi aðrir treysta sér í þá samkeppni.

Ég vil taka það fram, virðulegur forseti, að mér er kunnugt um að fyrirtækið hefur verið búið á sem bestan hátt til að taka þátt í samkeppni á undanförnum árum, m.a. með því að halda starfsmannafjölda í lágmarki. Í skýringum með frv. er talað um að starfsmenn hafi verið 180 á einum tíma og þeim hafi fækkað niður í 75. Á því eru margar skýringar. Á þeim tíma er starfsmenn voru flestir voru starfsmenn ráðnir til að byggja upp kolakerfi Sementsverksmiðjunnar. Strax að lokinni þeirri uppbyggingu var fólki fækkað verulega. Eftir því sem tæknibúnaður til vöktunar hefur skánað hefur fólki að sjálfsögðu verið fækkað en yfirleitt alltaf á þann mannlega hátt að fullorðnir starfsmenn sem hættu voru kvaddir með virktum og þökkuð störf en aðrir ekki ráðnir í staðinn. Það getur verið að einkaaðilar hefðu farið öðruvísi að en þó er ég ekki viss um það. Ég þekki mörg dæmi þess í einkageiranum að menn hafi fengið að starfa í eftir að þeir voru komnir á aldur. En það hefur verið regla hjá þessu fyrirtæki, sennilega því eina af þessu tagi, að starfsmenn hættu 67 ára gamlir. Þannig hefur ýmislegt verið að gerast sem menn hafa kannski ekki verið sáttir við alla tíð.

Hagsmunaaðilar hafa alltaf verið upplýstir um umhverfisáhrif verksmiðjunnar, um að Sementsverksmiðjan hefur tekið virkan þátt í framþróun og verið með í umræðu um umhverfismál, bæði á Akranesi og landsvísu. Ef til þess kemur að fyrirtækið fer í sölu þá vonast ég til að þeir aðilar sem þar koma að muni halda því starfi áfram, þ.e. gæða- og öryggismálum.

Virðulegur forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta lengra mál. Það hefur komið skýrt fram hjá mér að ég tel möguleika á að bjarga þessu fyrirtæki úr þeirri úlfakreppu sem það er í. Ég kann ekki mörg fleiri ráð en lögð eru fram í þessu frv. en ég hygg að þeir aðilar sem um málin véla geti haft einhver áhrif á hvernig að verður staðið.