Stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins

Mánudaginn 03. mars 2003, kl. 17:50:30 (4301)

2003-03-03 17:50:30# 128. lþ. 86.11 fundur 648. mál: #A stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins# (sala á eignarhluta ríkissjóðs) frv. 62/2003, JB
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 128. lþ.

[17:50]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Það frv. til laga um breytingu á lögum um stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins sem hér er til umræðu er ekki langort, er ekki margar greinar eins og hér hefur komið fram. Í 1. gr. frv. segir að iðnrh. sé heimilt að selja allan eignarhlut ríkissjóðs í Sementsverksmiðjunni hf. og í 2. gr. að lög þessi öðlist þegar gildi.

Við hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson tókum málefni Sementsverksmiðjunnar upp hér í haust og strax á fyrsta degi þingsins fluttum við þáltill. og komum fram með fyrirspurn varðandi stöðu Sementsverksmiðjunnar. Við fluttum tvær tillögur, aðra sem laut að samkeppnisstöðu verksmiðjunnar, þ.e. að gerð yrði úttekt á verðmyndun á innfluttu sementi. Þá hafði um nokkurt skeið verið og er reyndar enn innflutningur á sementi frá erlendu sementsfyrirtæki, innflutningur á sementi sem er í boði hér á miklu lægra verði en sams konar sement er í framleiðslulandinu. Við lögðum áherslu á að gerð yrði úttekt á verðmyndun á þessu innflutta sementi. Þáltill. sem mælt var fyrir fyrr í haust hljóðaði svo:

,,Alþingi ályktar að fela iðnaðarráðherra að láta gera úttekt á verðmyndun á innfluttu sementi og að grípa til aðgerða ef í ljós kemur að um undirboð er að ræða.``

Þessi þáltill. okkar fór til meðferðar í hv. iðnn. og er þar enn. Alþingi hefur ekki sýnt þann dug og þá djörfung að taka það mál þar til eðlilegrar meðferðar og láta reyna á hver staðan er í verðmyndun sements. Vissulega hafa mál verið í gangi gagnvart ESA-dómstólnum um þessa verðmyndun, en eins og kemur fram í frv. sem hér er til umræðu er endanlegur úrskurður þar ekki kominn.

Hins vegar hefur slík verðlagning, þessi meintu undirboð á innfluttu sementi, haft m.a. þau áhrif að rekstrarstaða og samkeppnisstaða Sementsverksmiðjunnar hefur látið mjög undan síga. Það var mat okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, að ríkisvaldið, iðnrn. fyrir hönd ríkisvaldsins sem fer með eignarhald og ábyrgð á verksmiðjunni fyrir hönd ríkisins, hefði átt að taka á þessu máli af myndarskap og dug. Það hefði t.d. verið hægt að kveða upp úr um að lögð yrði fram krafa um ákveðið lágmarksverð á sementi í landinu þannig að tekið væri fyrir þessi meintu undirboð á sementi meðan væri þá að koma í ljós hvernig að verðlagningu væri staðið. Þetta er leið sem hefði átt að skoða. En því miður hafa stjórnvöld valið þann kost að láta reka á reiðanum í málefnum verksmiðjunnar, ekki bara mánuðum heldur árum saman.

Í ræðu hv. þm. Gísla S. Einarssonar kom fram að ríkið hefði ekki lagt neitt eigið fjármagn í Sementsverksmiðjuna á því tímabili sem hún hefur starfað, ef frá er talið stofnframlagið á sínum tíma sem var að mestu leyti lán, eða kannski alveg lán. Að öðru leyti hefur eigandinn ekki komið að því að styrkja stöðu fyrirtækisins. Mjög algengt er að fyrirtæki þurfi á styrkingu eigin fjár að halda á löngum starfstíma og væri ekkert óeðlilegt við það í sjálfu sér að Sementsverksmiðjan þyrfti líka að fá styrkingu á eigin fé.

Fyrir nokkrum áratugum hafði ríkisvaldið bein afskipti af verðlagningu sements, jafnvel þegar þurfti að fara að krukka í vísitölu eða þess háttar nokkuð sem var jú afar óheilbrigð aðgerð, en var engu að síður gert. Þá var ekki alltaf hagur verksmiðjunnar sjálfrar borinn fyrir brjósti. Þannig hefur ríkisvaldið, virðulegi forseti, hvað eftir annað sýnt fullkomið kæruleysi gagnvart þessari mikilvægu eign sinni.

Við hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson lögðum áherslu á það strax í haust að ríkisvaldið tæki nú þegar á stöðu verksmiðjunnar, bæði hvað varðaði verð og verðmyndun, einnig hvað varðaði eiginfjárstöðu verksmiðjunnar, að eiginfjárstaðan yrði styrkt meðan verið væri að skjóta sterkari stoðum undir reksturinn og starfsemina. Við lögðum fram þáltill. um að Alþingi ályktaði að fela iðnrh. að láta gera úttekt á framtíðarhlutverki Sementsverksmiðjunnar hf. á Akranesi og, með leyfi forseta, orðrétt ,,við förgun spilliefna sem til falla í landinu ásamt öðrum iðnaðarúrgangi.`` Þetta yrði nýtt til þess bæði að eyða og nýta orkuríkan úrgang og einnig til að styrkja rekstrarstöðu verksmiðjunnar. Við lögðum þessa tillögu fram snemma í haust og hún er einnig til meðferðar í iðnn. Og hæstv. iðnrh. upplýsti í ræðu eða í umræðu um þetta mál fyrr í vetur að verið væri einmitt að vinna að skýrslu og úttekt á möguleikum verksmiðjunnar á að nýta þennan orkuríka úrgang. Og ég leyfi mér að spyrja, virðulegi forseti, hæstv. iðnrh.: Hvað líður þeirri skýrslu? Hvað líður þeirri úttekt sem hæstv. ráðherra boðaði að væri í gangi fyrr í vetur hvað varðaði möguleika fyrir Sementsverksmiðjuna að nýta þennan orkuríka úrgang? Mér finnst þetta vera það mikið stórmál að það eigi að vera hér til umfjöllunar samtímis því sem verið er að ræða sölu á verksmiðjunni sem lið í að styrkja stöðu hennar.

Ég vil líka spyrja hæstv. iðnrh. út í þær yfirlýsingar eða þá frétt sem kom í Ríkisútvarpinu 28. febrúar sl., í hádegisfréttum, þar sem verið var að tilkynna fyrirætlan hæstv. ráðherra um að setja verksmiðjuna á sölulista. Þar sagði, með leyfi forseta:

,,Útlit er fyrir að ekkert sement verði notað frá Sementsverksmiðju ríkisins við virkjanaframkvæmdir á Austurlandi og smíði álvers. Ekkert jöfnunargjald verður lagt á sement sem notað verður við framkvæmdirnar sem þýðir að flutningskostnaður yrði allt of mikill fyrir verksmiðjuna.`` --- Síðan er þetta mál rakið.

Ég leyfi mér að spyrja: Hvar er sú ákvörðun tekin að Sementsverksmiðjan megi ekki eiga aðild að því að keppa um að selja sement til þessara fyrirhuguðu framkvæmda ef af verða þarna fyrir austan? Hvar er sú ákvörðun tekin? Ég vissi ekki betur en að Sementsverksmiðjan væri í samráði við erlent sementsfyrirtæki um að bjóða í þá sementsnotkun. Þessi sementsnotkun gæti hugsanlega skipt máli. En hvers vegna á þá að útiloka Sementsverksmiðjuna frá því að eiga þarna aðild að? Við hvaða stoð styðst þessi frétt, virðulegi forseti? Ég óska eftir að hæstv. iðnrh. upplýsi það hvort Sementsverksmiðjunni sé meinað að taka þátt í hugsanlegu tilboði í sementsnotkun við framkvæmdir á Austurlandi varðandi fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir ef af verða þar.

[18:00]

Herra forseti. Hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson lýsti í ræðu áðan vinnu okkar, þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, í málefnum Sementsverksmiðjunnar. Við höfum gagnrýnt harðlega þann seinagang sem hefur verið af hálfu eigandans, ríkisvaldsins, við að grípa til aðgerða til að styrkja eiginfjárstöðu og rekstrarfjárstöðu fyrirtækisins. Þess er skemmst að minnast að á síðustu klukkutímum lokaafgreiðslu fjárlaga fyrir tveimur og hálfum mánuði voru haldnir eins konar neyðarfundir í fjárln. þar sem kippt var út þeirri heimild sem áður hafði verið sett inn í frv. til fjárlaga um að heimila sölu verksmiðjunnar. Henni var kippt út, á eins konar neyðarfundi sem kallaður var í fjárln., fyrir tveimur og hálfum mánuði og sett inn ákvæði í fjárlögin um heimild til að selja ákveðnar eignir verksmiðjunnar til að styrkja eiginfjárstöðu hennar. Það eru bara liðlega tveir mánuðir síðan. Hvers konar ruglandi er hér í svona mikilsverðu máli eins og málefnum Sementsverksmiðjunnar? Það er með ólíkindum hvernig að þessu máli er staðið.

Það má vel vera að það megi skoða breytt eignarhald á verksmiðjunni að einhverjum hluta en þá á það að gerast markvisst. Það á að gerast að yfirlögðu ráði. Það á að gerast með framtíðarheill verksmiðjunnar í huga og þeirra verkefna sem hægt er að fela henni en ekki bara til að þóknast einkavæðingaræðisstefnu ríkisstjórnarinnar sem þetta frv. ber fyrst og fremst keim af. Það að hér sé verið að skipta um skoðun varðandi stöðu verksmiðjunnar frá mánuði til mánaðar, verksmiðju sem er búin að starfa í áratugi og allir hafa lokið lofsorði á, hælt fyrir metnað, fyrir gott starf og fyrir góða framleiðslu, sérstaklega á seinni árum þegar gert var átak í því, er forkastanlegt. Þetta er með betra sementi sem er í boði, hefur fengið algeran gæðastimpil á bæði starfsemi sína og framleiðslu, en svo geta stjórnvöld verið að rokka til frá mánuði til mánaðar með það hvernig skuli taka á þessu fjöreggi. Mér finnst þetta afar ótrúverðugt, ekki síst þegar við vitum að hinn erlendi samkeppnisaðili sem hefur verið að flytja hingað inn sement og selja, jafnvel með meintum undirboðum, hefur líka lýst því yfir að þetta sé markaðssvæði hans og hann væri reiðubúinn að taka á sig fórnarkostnað til þess að tryggja að svo yrði varanlega.

Virðulegi forseti. Ég tel að það eigi ekki að ganga svo flausturslega til verks eins og þetta frv. og þessi vinnubrögð ríkisstjórnarinnar sýna. Það á að skoða þetta mjög vandlega. Númer eitt á að vera að tryggja rekstrargrundvöll verksmiðjunnar fyrir sementsframleiðslu í landinu. Það á jafnframt að kanna möguleika á því að nýta verksmiðjuna til þess að nýta orkurík úrgangsefni sem við verðum hvort eð er annars að verja miklu fjármagni til að losna við, en ella gæti orðið til þess að gera rekstur verksmiðjunnar hagkvæmari. Það er því fráleitt að í þessari stöðu sé verið að keyra í gegn frv. sem heimilar sölu verksmiðjunnar gjörsamlega út í loftið. Þetta er ábyrgðarlaust. Það er ekki sæmandi gagnvart þeirri starfsemi sem stunduð hefur verið í verksmiðjunni og ekki heldur gagnvart því starfsfólki sem þar vinnur að ganga svona fullkomlega óábyrgt og flausturslega til verks.

Það er jafnframt kannski lýsandi fyrir stöðuna hvernig eigandinn, undir stjórn hæstv. iðnrh. sem hefur farið með málefni verksmiðjunnar, hefur farið að. Menn segja jafnvel að ríkið sé búið að halda svo illa á málum og sé svo illa treystandi að það geti varla orðið verra hlutskipti verksmiðjunnar að vera selt einhverjum og einhverjum. Flogið hefur fyrir að þetta ástand verksmiðjunnar í höndum ríkisins síðustu missirin sé það versta sem menn geta hugsað sér og það geti ekki orðið verra og það séu rökin fyrir því að menn vilja láta það yfir sig ganga að selja hana með þeim hætti sem hér er lagt til. Þetta eru dapurleg rök.

Jafnframt er á sömu dögum keyrt í gegnum Alþingi frv. til byggingar annarrar verksmiðju, miklu stærri, jafnvel mörg hundruð sinnum stærri verksmiðju heldur en þessi er, en þar er aldeildis verið að styrkja. Þar er verið að styrkja með framlögum, þar er verið að styrkja með vaxtaívilnunum, þar er verið að styrkja með ríkisábyrgðum o.s.frv. Þar skal ekkert til sparað hjá ríkinu til að koma þeirri starfsemi upp, og er staðið í, eins og hæstv. iðnrh. sagði á Alþingi um daginn, viðkvæmum samningaviðræðum við ESA-dómstólinn, dómstól sem maður hélt að væri dómstóll og þyrfti ekki að standa í samningaviðræðum við. Þar eru málin á svona viðkvæmu stigi, eins konar samningaviðræður, eins og hæstv. ráðherra orðaði það, um hversu mikið ríkið má niðurgreiða starfsemina í álverksmiðjunni fyrirhuguðu í Reyðarfirði. En hér er allt í einu sagt: Það gengur ekki samkeppnislega séð að standa að sementsverksmiðju. Það sér hver heilvita maður, virðulegi forseti, hvers konar hráskinnaleikur þetta er.

Virðulegi forseti. Þetta mál fer til iðnn. þar sem hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson, fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, mun að sjálfsögðu fylgja þessu máli eftir og okkar sjónarmiðum við meðferð þessa máls. Í hv. iðnn. eru einnig þáltill. okkar hv. þm. Árna Steinars Jóhannssonar, bæði um úttekt og verðmyndun á innfluttu sementi sem hefur ekki enn verið afgreitt frá nefndinni og sömuleiðis um úttekt á framtíðarhlutverki Sementsverksmiðjunnar hf. við förgun á úrgangsefnum. Þessar tillögur eru þar líka til umfjöllunar þannig að það gefst þá tækifæri til að taka á þessum málum í heild sinni í hv. iðnn.

Virðulegi forseti. Það er dapurlegt að það skuli vera meðal rakanna fyrir því frv. til laga sem hér er lagt fram, um að selja Sementsverksmiðjuna, að það sé varla hægt að hugsa sér hirðulausari eða kærulausari eiganda og ábyrgðaraðila fyrir þessari ágætu verksmiðju en ríkið eins og það hefur hagað sér gagnvart verksmiðjunni á síðustu vikum, mánuðum og missirum og þess vegna geti menn varla búist við verra þótt hún yrði seld. Það eru dapurleg rök, herra forseti. En ég vona þó að í hv. iðnn. og hér á Alþingi, hvernig sem þetta mál fer, verði það sett sem metnaður, verði það ljós sem stýrt verði eftir, að framtíð Sementsverksmiðjunnar verði tryggð og starfsemi hennar í sem víðtækustum skilningi hér á landi og að verksmiðjan á Akranesi fái dafnað.