Stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins

Mánudaginn 03. mars 2003, kl. 18:09:11 (4302)

2003-03-03 18:09:11# 128. lþ. 86.11 fundur 648. mál: #A stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins# (sala á eignarhluta ríkissjóðs) frv. 62/2003, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 128. lþ.

[18:09]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tók eftir því að hv. þm. talaði um að setja lágmarksverð á sement. Ég spyr því: Telur hann yfirleitt koma til greina á samkeppnismarkaði að stjórnvöld setji lágmarksverð á einhverja framleiðslu? Hvernig telur hann að framkvæmd á því geti þá orðið?

Síðan langaði mig til þess að spyrja hvort hv. þingmaður telji það virkilega skynsamlegt af okkar hálfu að greiða niður flutningsjöfnun á sementi til þess að byggja Kárahnjúkastíflu eða önnur mannvirki tengd þarna fyrir austan, og álverið. Sér hann ekki að það yrði æðimikil meðgjöf með framleiðslu á sementi ef við ætluðum að gera það? Varla er hægt að finna mikið lengri leið til að flytja sement á notkunarstað en þarna er um að ræða, og hætt við því að yrði ærið mikill undirballans á þessu.

Síðan langar mig til þess að spyrja hv. þingmann hvort þeir hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, hann og hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson, séu virkilega ekki sammála í þessu máli. Ég heyrði ekki betur en að hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson segði áðan í sinni ræðu að hann teldi koma til greina að selja verksmiðjuna en ég heyrði ekki betur en að hv. síðasti ræðumaður legðist alfarið gegn því og teldi það ábyrgðarlaust og ekki sæmandi að láta sér bara detta það í hug í þessari stöðu. Mér finnst líka að miðað við það sem ég hef heyrt áður frá þessum tveimur hv. þm. að um sé að ræða algera kúvendingu ef þeir eru reiðubúnir til að standa að því að verksmiðjan verði seld.