Stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins

Mánudaginn 03. mars 2003, kl. 18:17:08 (4306)

2003-03-03 18:17:08# 128. lþ. 86.11 fundur 648. mál: #A stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins# (sala á eignarhluta ríkissjóðs) frv. 62/2003, MS
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 128. lþ.

[18:17]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breytingu á lögum um stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins. Í þessu frv. felst tillaga um að ríkið selji allan eignarhlut sinn í þessu fyrirtæki.

Herra forseti. Ljóst er að starfsumhverfi Sementsverksmiðjunnar hefur breyst mjög á mörgum undanförnum árum. Þar hefur margt komið til. Dregið hefur úr sölu á sementi undanfarin ár og það hefur auðvitað gert verksmiðjunni erfitt um vik. En fyrir ekki löngu síðan kom hér upp samkeppni í sementssölu þegar danskt fyrirtæki hóf að flytja hingað inn sement og selja í samkeppni við Sementsverksmiðjuna. Auðvitað skiptir það verulega miklu máli fyrir fyrirtækið þegar þessi samkeppni kemur upp og það er hluti af þeirri stöðu sem við stöndum frammi fyrir í dag.

Menn hafa mikið rætt í þessari umræðu um eigandann, þ.e. ríkið, og hvort iðnrn. sem fer með málið hafi eitthvað gert í því að reyna að bæta stöðu fyrirtækisins út frá eigandaábyrgð og öðru slíku. Þá er það ljóst að iðnrn. hefur marga undanfarna mánuði lagt í töluverða vinnu við að tryggja stöðu þessa fyrirtækis, sérstaklega eftir að samkeppni kom hér upp. Ég geri ráð fyrir því að hv. þingmenn sem ásaka iðnrn. um algjört afskiptaleysi í þessari umræðu hljóti að vita að ráðuneytið hefur lagt í mikla vinnu og m.a. út frá meintum undirboðum innflytjandans og fleiri aðila hafa menn lagt í mikla vinnu við að kæra málið o.s.frv. til samkeppnisyfirvalda, ekki bara hér heldur líka á hinu Evrópska efnahagssvæði. Þess vegna kemur mér mjög á óvart að heyra þann málflutning sem hér hefur verið í þessa veru og vísa honum algjörlega á bug.

Herra forseti. Miðað við stöðuna í dag hjá Sementsverksmiðjunni tel ég ljóst að óbreytt staða muni þýða endalok starfseminnar. Það er ekki flóknara en það í mínum huga. Ég held að það sé alveg ljóst að ríkið sem eigandi fyrirtækisins leggur fyrirtækinu ekki til aukið fjármagn til rekstrar. Það blasir við núna, eins og staðan er, að taprekstur verður á fyrirtækinu ef ekki verður gripið til aðgerða fram eftir árinu og það þýðir væntanlega að fyrirtækið kemst í þrot. Ef svo færi þá væri komin upp ný staða á sementsmarkaði hér þar sem um væri að ræða einokun á hendi innflutningsaðila sements. Ég held að það sé staða sem menn almennt vilja alls ekki standa frammi fyrir og hagsmunaaðilar í steypuframleiðslu og öðru vilja auðvitað alls ekki standa frammi fyrir því.

Iðnrn. hefur, eins og ég sagði fyrr, haldið uppi mikilli vinnu við að tryggja starfsemi þessarar verksmiðju. Þannig er nú staðan. En ég verð að segja, herra forseti, að hér hafa talsmenn Vinstri grænna komið í pontu og rætt þetta mál og þar kemur fram, eins og í öllum öðrum málum, að það á að skoða málin og gera helst eitthvað allt annað en lagt er til. Hér hafa menn rætt um ýmsar patentleiðir sem eru að mínu mati óraunhæfar, t.d. það að hér hefur verið rætt um lágmarksverð o.s.frv. En það er svo að við búum ekki við ráðstjórn sem betur fer, vil ég segja. Hér er bullandi samkeppni í þessari starfsemi og þess vegna getur ríkið ekki hagað sér eins og kannski sumir menn vildu sjá.

Ég verð að segja að mér hefur fundist ýmislegt sem hér hefur verið sagt í þessari umræðu varðandi eigandann vera ómálefnalegt og kannski ekki mönnum til sóma.

Herra forseti. Í frv. er lagt til að ríkið selji eignarhlut sinn í fyrirtækinu. Ég vona að hagsmunaaðilar muni kaupa þetta fyrirtæki og að þeir sjái sér hag í því að halda starfseminni áfram, halda áfram framleiðslu á sementi á samkeppnismarkaði og það er ákveðin trygging fyrir því að starfsemi fyrirtækisins haldi áfram blómlega eins og verið hefur til skamms tíma.

Sementsverksmiðjan á sóknarfæri í starfsemi sinni. Fyrirtækið framleiðir gæðasement og viðurkennda vöru. Það er styrkur fyrirtækisins. Við blasa mörg stór verkefni í uppbyggingu, t.d. stækkun Norðuráls, og það hefur sitt að segja varðandi sementsmarkaðinn. Einnig eru stórar framkvæmdir fyrirhugaðar á Austurlandi við byggingu Kárahnjúkavirkjunar o.s.frv. Ég tel að Sementsverksmiðjan hafi sama aðgang og aðrir í samkeppnisrekstri við sölu á sementi til þessara framkvæmda. Því er fráleitt að ætla að einhver ákvörðun hafi verið tekin um að útiloka Sementsverksmiðjuna frá því eins og fram hefur komið hjá einstaka ræðumönnum.

Einnig eru sóknarfæri í eyðingu úrgangs og spilliefna. Þar eru stórir þjóðarhagsmunir í húfi. Um síðustu áramót tóku gildi lög um úrvinnslugjald sem ég tel að muni skipta verulega miklu máli fyrir Sementsverksmiðjuna því að verksmiðjan býr yfir mjög góðum möguleikum á því að eyða slíkum úrgangi. Ég tel því að þar liggi ákveðin sóknarfæri fyrir fyrirtækið. Hér eru þó ýmis mál í húfi, svo sem störf á Akranesi og Akranessvæðinu. En ég minni á að fram undan er stækkun Norðuráls þannig að atvinnumarkaðurinn á Akranesi býr vel bæði að þessari starfsemi og því sem fram undan er.

Ég vil segja að lokum, herra forseti, að ég er almennt þeirrar skoðunar að ríkið eigi ekki að reka fyrirtæki sem eru í bullandi samkeppnisstarfsemi eins og t.d. á við um Sementsverksmiðjuna. Ég tel að það sé vont fyrir fyrirtækið. Ég tel að það sé vont fyrir fyrirtæki á við Sementsverksmiðjuna í samkeppnisrekstri að ríkið eigi fyrirtækið að öllu leyti. Ákveðin hefting felst í því fyrir fyrirtækið.

Ég er sannfærður um að þó svo að ríkið losi sig út sem eigandi að þessu fyrirtæki þá eigi starfsemin framtíðina fyrir sér. Sóknarfærin eru mörg og við vitum að Íslendingar eru ekki hættir að blanda steypu og byggja hús þannig að auðvitað er margt fram undan í því.

Að lokum vil ég segja, herra forseti, að ég styð frv. og geri það í þeirri von að það verði til þess að styrkja starfsemi Sementsverksmiðjunnar og ég tel að fyrirtækið eigi ágæta framtíð fyrir höndum.