Stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins

Mánudaginn 03. mars 2003, kl. 18:26:53 (4309)

2003-03-03 18:26:53# 128. lþ. 86.11 fundur 648. mál: #A stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins# (sala á eignarhluta ríkissjóðs) frv. 62/2003, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 128. lþ.

[18:26]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég heyrði að hv. þm. veit af þessari umræðu um áhuga hins danska sementsrisa á að komast yfir hinn íslenska sementsmarkað og að hann sé reiðubúinn að taka á sig ákveðinn fórnarkostnað til þess að svo verði.

Ég vil leyfa mér að spyrja hv. þm. hvort hann deili ekki áhyggjum mínum af því að ef Sementsverksmiðjan fer á almennan sölulista, komi fram erlendir aðilar sem hafa bolmagn til þess að bjóða hæst í þessa verksmiðju og þá ekki endilega með það í huga að reka hana til framtíðar heldur tryggja sér stöðu markaðarins hér. Ég tel að mikil hætta sé á því og leyfi mér að spyrja hv. að því hvort hann deili ekki áhyggjum mínum. Ef ríkið sleppir hendinni af verksmiðjunni eins og hér er gert ráð fyrir án þess að búið sé að tryggja stöðu hennar gætum við staðið berskjaldaðir frammi fyrir erlendum aðilum sem búa yfir miklu fjármagni og munar ekki mikið um milljónina til eða frá til að leysa til sín verksmiðjuna til þess að tryggja sér markaðinn hér til frambúðar. Þetta segi ég í ljósi þeirra umræðna sem hafa verið um Aalborg Portland og aðra sem gætu hugsanlega viljað tryggja sér þennan markað þó hann sé ekki stór.