Stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins

Mánudaginn 03. mars 2003, kl. 18:40:30 (4315)

2003-03-03 18:40:30# 128. lþ. 86.11 fundur 648. mál: #A stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins# (sala á eignarhluta ríkissjóðs) frv. 62/2003, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 128. lþ.

[18:40]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil bara ítreka það sem kemur fram í grg. frv. að það verður auglýst eftir áhugasömum aðilum og síðan mun seljandinn að sjálfsögðu velja viðræðuaðila með tilliti til þess hvað viðkomandi hefur í huga. Menn mega því ekki nálgast þetta með það neikvæðu hugarfari að þeir sjái ekki ljósið. Ég held að það sé um að gera að reyna að nálgast öll viðfangsefni frekar á jákvæðum nótum og reyna að gera það besta úr hlutum sem mögulegt er hverju sinni.

En við stöndum frammi fyrir erfiðri stöðu í dag og það er stóra málið. Þess vegna grípum við til þessara aðgerða að fá heimild Alþingis til að selja verksmiðjuna af því að ástandið í dag er óviðunandi og það er óviðunandi fyrir starfsfólkið, að mínu mati, að búa við það að vita ekkert um framtíðina. Ég mat það svo þegar ég átti fund með starfsfólkinu að því þætti þetta ekki slæmt útspil. Þetta er þó a.m.k. tilraun eigandans til að taka á vandamálinu og leiða mál þannig til lykta að það sé starfsfólki í hag.