Stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins

Mánudaginn 03. mars 2003, kl. 18:49:06 (4320)

2003-03-03 18:49:06# 128. lþ. 86.11 fundur 648. mál: #A stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins# (sala á eignarhluta ríkissjóðs) frv. 62/2003, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 128. lþ.

[18:49]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Auðvitað er viðskiptaheimurinn harður, um það hafa menn séð dæmin þessa dagana. En það er hlutverk stjórnvalda að reyna að sjá til þess að leikreglurnar séu skýrar, að einokun komist ekki á, og að reyna að sjá til þess að samkeppni komist inn í þau verkefni sem eru að koma ný, eins og þessi hér. Við höfum ekki séð samkeppni á sementsmarkaðnum fyrr en Aalborg Portland kom inn á markaðinn með sína sölu á sementi. Síðan hefur Sementsverksmiðjan þurft að glíma við þetta verkefni.

Það er greinilegt að með því verði sem hefur verið á markaðnum síðan er Sementsverksmiðjan ekki samkeppnisfær. Það er verið að gera tilraun með þessari hugmynd um sölu á verksmiðjunni til þess að koma henni inn í öðruvísi umhverfi, og við vitum að við getum ekki sem forsvarsmenn ríkisins haldið áfram að framleiða sement og greiða það niður í samkeppni við innflutt sement. Við höfum einfaldlega skrifað undir reglur og samninga sem gera okkur það ekki kleift. Þetta er leiðin sem við getum farið, þ.e. að koma fyrirtækinu í hendur annarra aðila, að styðja við bakið á því með verkefnum sem við höfum möguleika á en innflutningsaðilar hafa ekki sömu möguleika á að rækja.

Ég tel að það sé full átæða til að gera þessa tilraun og leyfi mér að vera bjartsýnn á að hún takist.