Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 04. mars 2003, kl. 14:22:14 (4326)

2003-03-04 14:22:14# 128. lþ. 87.6 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 128. lþ.

[14:22]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. málefnalegt svar. Það er þá ljóst að hann yrði ekki sammála framkvæmdunum þrátt fyrir að þjóðin í meiri hluta væri það, en það væri betra að lifa við það af þeirri ástæðu.

Herra forseti. Vegna spurningar sem hv. þm. beindi til mín þá er hún auðvitað ein af þessum ef-spurningum, eins og ég var að spyrja, þ.e. ef þetta yrði þannig og ef þetta yrði þannig. Það er alveg ljóst að ef við hefðum kerfi sem byði okkur upp á þjóðaratkvæðagreiðslu um mál eins og þetta þá væri sú þjóðaratkvæðagreiðsla að sjálfsögðu fyrir löngu búin að fara fram. Þá væru það auðvitað hreinar línur að meiri hluti þjóðarinnar mundi ráða. Hins vegar er auðvitað alveg ljóst eins og hv. þm. veit og hann færði raunverulega rök fyrir í ræðu sinni að þessi tillaga þingflokks hans er að sjálfsögðu færð fram af þeirri einföldu ástæðu að málið er komið á lokastig og þetta er eina leiðin sem þeir eiga eftir til þess að reyna annaðhvort að tefja eða koma í veg fyrir framkvæmdina. Ég tel hins vegar, eins og hv. þm. veit, að þetta mál hafi fengið alla þá þingræðislegu meðferð sem við gerum ráð fyrir. Það hefur verið farið að öllum lögum um málið þannig að í raun er ekkert því til fyrirstöðu að við ljúkum vinnu við þetta mál og greiðum atkvæði um það á morgun. Þá geri ég ráð fyrir, eins og hv. þm. gerir trúlega líka, að þessi brtt. þeirra hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs verði felld.