Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 04. mars 2003, kl. 14:23:46 (4327)

2003-03-04 14:23:46# 128. lþ. 87.6 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 128. lþ.

[14:23]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það var of gott til að vera satt að hv. þm. ætlaði að fara að eiga málefnaleg skoðanaskipti um þetta því ekki gat hann látið hjá líða að láta að því liggja að í raun lægi annarlegur tilgangur að baki flutningi þessarar tillögu en ekki efnislegur, sem sagt ekki sá að við vildum bara ósköp einfaldlega að málinu lyki á þennan hátt. Nei, það fæst hv. þm. ekki til að taka með sem möguleika, heldur hlýtur eitthvað allt annað að vera þarna á ferðinni.

Nú er augljóst mál að það tefur ekki mikið málið í öllu falli að leggja fram þessa tillögu og fá hana rædda hér og greidda um hana atkvæði. Hv. þm. tilheyrir þingflokki sem hefur stundum farið mikinn, útmálað vilja sinn fyrir því að taka upp beint lýðræði og þjóðaratkvæðagreiðslur og flutt um það tillögur. Hér gefst alveg kjörið tækifæri því það liggur alveg á borðinu og er sannanlegt að það er ekki of seint að hætta við þessar framkvæmdir. Þjóðin gæti tekið málið í sínar hendur, ef hún fær það, og leitt það til lykta á hvorn veginn sem er að sjálfsögðu. En enginn héraðsbrestur yrði þótt niðurstaðan yrði sú að hætta við þetta. Allir samningar sem enn hafa verið gerðir eru með fyrirvörum. Eingöngu undirbúningsframkvæmdir eiga að vera í gangi ef allt er með felldu. Það sem ósköp einfaldlega gerist, ef Alþingi samþykkir á morgun og gerir að lögum þessa tillögu, er þá bíða frekari skuldbindandi ákvarðanir þess að niðurstaða liggi fyrir 10. maí nk., þ.e. í nokkrar vikur frá því sem áður var áformað, að undirrita endanlega verksamninga og ganga frá málum, kannski í aprílmánuði nk. Þá mundu framkvæmdir að sjálfsögðu ekki hefjast kannski strax þannig að í reynd gæti vel farið svo að eiginlegu upphafi framkvæmda væri þá bara frestað þess vegna um lítið sem ekkert í flestum tilvikum þó að þjóðin fengi að segja álit sitt. Getur verið að andstaða manna hér við þetta sé þá af þeim sökum að þeir eru hræddir við mögulega útkomu í svona atkvæðagreiðslu? Það er von að maður spyrji. Það liggur alveg ljóst fyrir, herra forseti, að andstaða vex dag frá degi við þetta mál. Það er kannski skýringin. En ekki trúi ég því að menn séu margsaga í sambandi við viðhorf sín til þjóðaratkvæðagreiðslu.