Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 04. mars 2003, kl. 15:28:09 (4334)

2003-03-04 15:28:09# 128. lþ. 87.6 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 128. lþ.

[15:28]

Þuríður Backman (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þetta svar. Ég hef haft samband við Skarphéðin Þórisson sem er okkar helsti sérfræðingur í rannsóknum á hreindýrum og hefur m.a. það starf hjá Náttúrustofu Austurlands að vakta hreindýrin. En þar sem í úrskurði hæstv. umhvrh. kom fram að sérstök vöktun skyldi vera á starfstíma virkjunarinnar þá hefur það verið tekið svo bókstaflega að ekkert fjármagn eða beiðni eða nein vinna hefur verið sett í gang til þess að vakta hreindýrin núna, þ.e. frá því í haust er framkvæmdir hófust. Þarna er gat. Það líður einhver tími þar til virkjunin tekur til starfa. Það munu líða nokkur ár. Það er óþolandi að hafa ekki vöktun sem í raun hefði átt að vera hafin til þess að fylgjast með hegðun hreindýranna á byggingartíma virkjunarinnar, því framkvæmdirnar eru miklar á hreindýraslóðum. Kýrnar bera í Kringilsárrananum þar sem nú er verið er rótast um í dag og líða fer að burði. Það er mjög mikilvægt að Náttúrustofa Austurlands fái fjármagn í þessa vöktun, ekki bara á starfstímanum, heldur nú þegar.