Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 04. mars 2003, kl. 17:13:54 (4341)

2003-03-04 17:13:54# 128. lþ. 87.6 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 128. lþ.

[17:13]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil fullvissa hv. þm. um það að við erum að vinna að fjölbreytni í atvinnulífinu. Við erum að vinna að erlendri fjárfestingu á Íslandi sem hefur verið beðið eftir lengi. Svo gerist það að þarna kemur stórt fyrirtæki sem er virt á alþjóðamarkaði og vill fjárfesta, og að sjálfsögðu gleðjumst við yfir því. Það hefur verið mjög áhugavert að vinna með þessum einstaklingum sem eru í forsvari fyrir þetta fyrirtæki á síðasta ári. Og það er nú innan við ár, að hugsa sér, það er innan við ár síðan þetta samband og þessi samvinna hófst við fyrirtækið og við erum með málið nánast í höfn, og það er frábært.

Þegar hv. þm. er að bera saman kostnað við störf hjá Háskólanum á Akureyri og svo kostnað við störf við stóriðju á Austurlandi þá er það ekki sambærilegt því eins og ég er búin að margtaka fram þá er ríkisvaldið ekki að leggja fram fjármagn til þessara starfa í álveri í Reyðarfirði. Það er fjárfestirinn sem gerir það og hann sér sér hag í því að byggja þessa verksmiðju þó að hún kosti mikla fjármuni, og hann sér að hann hefur engu að síður arð af fjármagni sínu í verksmiðjunni þó að hún sé dýr og þó að hvert starf sé dýrt. Þetta er ekki reikningsdæmi sem er mjög flókið, en aftur og aftur koma hv. þm. Vinstri grænna hér upp og tala eins og ríkisvaldið sé að setja í þetta fjármagn og það sé hægt að nota þá peninga í eitthvað allt annað, peninga sem við eigum ekki. Og svo er því haldið fram að búið sé að leggja svo mikla fjármuni í undirbúning vegna Kárahnjúkavirkjunar og það er eins og þeim fjármunum sé kastað á glæ. Aftur og aftur hefur verið útskýrt úr þessum ræðustóli að það fjármagn sem farið hefur í undirbúning næst til baka í orkuverðinu.