Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 04. mars 2003, kl. 17:20:40 (4344)

2003-03-04 17:20:40# 128. lþ. 87.6 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 128. lþ.

[17:20]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ef ég skildi hv. þingmann, formann efh.- og viðskn. þingsins, er hann undrandi á því að veruleikinn skuli vera eins og hann raunverulega er, að markaðurinn skuli bregðast við eins og raun ber vitni. Hann á alls ekki að gera það, segir formaður nefndarinnar og tekur þar undir með hæstv. forsrh., þetta á ekkert að gerast fyrr en 2005 eða 2006. En þetta er að gerast núna og menn eru að ræða nákvæmlega það.

Varðandi hin ýkjukenndu viðbrögð vil ég spyrja hv. þm. hvort hann sé að beina spjótum sínum sérstaklega til Viðskiptablaðsins sem talar hér um útflutningsgreinar í spennitreyju og er með hverja heilsíðuna og opnuna um þetta efni þar sem kallaðir eru til ráðgjafar og umsagna fulltrúar fjármála- og atvinnulífs. Öllum ber saman um hvað þarna er að gerast.

Deilurnar snúast um það hvort þetta sé heppileg og skynsamleg leið til þess að örva hagvöxt og stuðla hér að kröftugu, fjölbreyttu atvinnulífi. Það er yfirlýst stefna annars stjórnarflokksins, Framsfl., að þungaiðnaður eigi að vega þyngra í efnahagslífi okkar en hann hefur gert. Það er talað um það sem hornstein velferðarkerfisins í framtíðinni að þungaiðnaður verði meira en þriðjungur af efnahagsstarfsemi í landinu.

Efnahagssérfræðingar hafa hins vegar komið fram, m.a. á síðum þessa blaðs, og sagt að þetta muni ekki stuðla að stöðugleika í efnahagskerfi okkar, rannsóknir þeirra bendi til að það muni auka á óstöðugleikann, og þeir hafa fært fyrir þessu rök.

En ég mun með athygli hlusta síðan á ræðu hv. þm. þegar hann fer yfir þessi mál, gerir rækilega grein fyrir röksemdum sínum. Þær hljóta náttúrlega að vera á þurru fyrst hann getur varið þessa framkvæmd af eins miklum áhuga og hann gerir.