Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 04. mars 2003, kl. 17:22:45 (4345)

2003-03-04 17:22:45# 128. lþ. 87.6 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 128. lþ.

[17:22]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Sjónarmið mín koma rækilega fram í nál. meiri hluta efh.- og viðskn., ég þarf út af fyrir sig ekki að tíunda þau.

En það sem ég var einfaldlega að segja voru þau efnislegu rök að það væru ýkjukennd viðbrögð af hálfu svokallaðs ,,markaðar`` þegar það gerðist að markaðurinn brygðist þannig við sem leiddi til þessarar miklu raungengishækkunar í ljósi þess að framkvæmdirnar sem hér er verið að ræða um munu fyrst og fremst eiga sér stað og hafa áhrif á efnahagslífið á árunum 2005 og 2006. Hv. þingmanni til upplýsingar er nú ársbyrjun 2003 og þess vegna benti ég einfaldlega á að þetta væru ýkjukennd viðbrögð, líkt og menn bentu á fyrir rúmu ári þegar markaðurinn brást þannig við að missa trú á íslensku krónuna. Verðgildi íslensku krónunnar minnkaði þannig að verkalýðshreyfingin, sem ég býst við að hv. þm. sé nokkuð kunnugur, taldi ástæðu til þess að Íslendingar brygðust við til þess að styrkja gengi íslensku krónunnar, hafa áhrif á það til þess að styrkja hana.

Nú hefur þetta hins vegar gerst, m.a. vegna áhrifa af þessari fyrirhuguðu framkvæmd sem mun eiga sér stað á árunum 2005 og 2006 að langmestu leyti. Það sem ég var einfaldlega að benda á er sú staðreynd að með því að gengið hefur hækkað svona mikið núna, strax í ársbyrjun 2003, liggur það auðvitað fyrir, virðulegi forseti, að áhrifin verða m.a. þau að það þarf minni aðgerðir á ríkisfjármálasviði. Hv. þm. hefur t.d. talað mikið um fyrirhugaðan niðurskurð í ríkisfjármálum. Það liggur fyrir, að mati hagfræðinga, að styrking krónunnar núna muni þýða að það verður minni þörf á aðhaldi í ríkisfjármálum en ella. Og það liggur líka fyrir, að mati þessara hagfræðinga sem m.a. hv. þm. vitnar oft til, að það verður minni þörf á því að beita vaxtahækkunum til þess að stemma stigu við þeim vexti sem verður í efnahagslífinu á árunum 2005 og 2006 vegna áhrifa fjárfestingarinnar.

Það sem ég er einfaldlega að segja, virðulegi forseti, er að það er hægt að beita þarna þrenns konar aðgerðum og ef áhrifin verða meiri, eins og til að mynda núna á genginu, mun það hafa þau áhrif að það verður minni þörf á að beita öðrum aðgerðum til þess að draga úr hugsanlegri þenslu sem ella yrði árin 2005 og 2006.