Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 04. mars 2003, kl. 17:25:12 (4346)

2003-03-04 17:25:12# 128. lþ. 87.6 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 128. lþ.

[17:25]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég hefði kosið að þessi umræða hefði farið ítarlegar fram í efh.- og viðskn. þar sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hefur verkstjórn.

Hann vísar hér í nál. þar sem sjónarmið hans komi fram. Það er þá væntanlega frá meiri hluta iðnn. (Gripið fram í: Efh.- og viðskn.) Og efh.- og viðskn.? Meiri hluti iðnn. er hér með eina síðu rúma um þetta stórmál og mér sýnist að að megninu til sé þetta upptalning á þeim sem komu fyrir nefndina. Að uppistöðu er þetta merka rit frá stjórnarandstöðunni og að meginhluta til frá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði sem hefur reynt að taka þátt í efnislegri umræðu um þetta mál.

Það sem ég saknaði þegar við ræddum þetta í efh.- og viðskn. var að því skuli hafa verið hafnað að óháður aðili yrði fenginn til þess að skera úr um deilumál sem upp komu og lutu að staðreyndum málsins, ekki neinu huglægu heldur að efnislegum staðreyndum málsins. Það hefur ekki gerst.

Hv. þm. fór hér í máli sínu orðum um samspil á milli gengis, vaxta og annarra þátta. Ég hefði kosið að slík umræða hefði orðið rækilegri í efh.- og viðskn. og skal ég þó taka það fram að hv. þm. varð við þeirri ósk að kalla til sögunnar alla þá sérfræðinga sem óskað var eftir, það var ekkert óeðlilegt við vinnubrögðin að því leyti. Hins vegar harma ég það að ekki skuli hafa verið orðið við þeirri tillögu sem fram kom og ég setti fram í nefndinni að óháður aðili yrði fenginn til að skera úr um þau miklu deilumál sem eru uppi.