Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 04. mars 2003, kl. 20:35:37 (4356)

2003-03-04 20:35:37# 128. lþ. 87.6 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 128. lþ.

[20:35]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vildi einungis þakka hv. þm. fyrir það hvað hann hefur nefnt Framsfl. oft á nafn í ræðum sínum í dag. Ekki veitir nú af að halda á lofti nafni flokksins og þegar saga verður skoðuð síðar meir þá mun það ekki fara á milli mála að Framsfl. átti drjúgan þátt í því að af þessu verkefni varð. Ég er ákaflega stolt af því að hafa fengið tækifæri til þess á minni ráðherratíð að vera þar í forustu. Það á að fara að kjósa og þar er enginn sem veit hvernig mál skipast eftir kosningar. Þó er alla vega ljóst að ég fékk tækifæri til þess sem iðnrh. að leiða þetta mikilvæga mál og það skiptir mig miklu máli. Það er mikil reynsla. Ég hef verið sannfærð allan tímann um að við séum að gera rétt með því að fara í þessa framkvæmd. Hún er vissulega stór. Hún hefur vissulega í för með sér náttúruspjöll. En þannig er það alltaf með virkjanir. Enginn getur haldið því fram í dag að mínu mati að við höfum ekki átt að fara þá leið að virkja fallvötn okkar og nýta þannig orku sem býr í þeim og þessa miklu auðlind.

Nú vil ég við lok þessarar umræðu því fá að segja þessi orð og vonast að sjálfsögðu til þess að það gangi eftir sem við höfum á prjónunum núna því ekki er langt í land.