Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 05. mars 2003, kl. 13:36:31 (4359)

2003-03-05 13:36:31# 128. lþ. 88.5 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, BH (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 128. lþ.

[13:36]

Bryndís Hlöðversdóttir (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þingflokkur Samfylkingarinnar styður fyrirliggjandi frv. í meginatriðum og telur að þegar á heildina er litið muni þessi framkvæmd stuðla að auknum hagvexti og atvinnuuppbyggingu. Er það skoðun okkar að eins og kostur er hafi verið tekið tillit til umhverfissjónarmiða og að ásættanlegu jafnvægi hafi verið náð milli nýtingar náttúruauðlinda og umhverfisverndar. Um þetta stóra og viðkvæma mál eru hins vegar skiptar skoðanir í okkar flokki og tveir þingmenn okkar hafa frá upphafi verið andvígir málinu af umhverfisástæðum og munu sem fyrr greiða atkvæði gegn málinu.

Samfylkingin er hlynnt því að sett verði almenn löggjöf um þjóðaratkvæði enda margsinnis flutt um það frv. Sú tillaga sem hér liggur fyrir í formi brtt. við frv. er hins vegar gölluð. Alla útfærslu vantar á málsmeðferð auk þess sem málið hefur ekki fengið þinglega umfjöllun í nefnd enda seint fram komið og flutt í formi brtt. Það orkar auk þess tvímælis að blanda þjóðaratkvæðagreiðslu um eitt tiltekið mál saman við alþingiskosningar. Þingflokkur Samfylkingarinnar mun því sitja hjá við atkvæðagreiðslu um þá tillögu.

(Forseti (HBl): Ég vil biðja þá sem hér eru á áhorfendapöllum um að sýna Alþingi háttvísi.)