Fíkniefnameðferð

Miðvikudaginn 05. mars 2003, kl. 14:03:36 (4375)

2003-03-05 14:03:36# 128. lþ. 89.1 fundur 573. mál: #A fíkniefnameðferð# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi KF
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 128. lþ.

[14:03]

Fyrirspyrjandi (Katrín Fjeldsted):

Herra forseti. Það hefur lengi verið ljóst að í þjóðfélaginu er talsverður hópur fólks háður sterkum verkjalyfjum til vímugjafar og þessi lyf má fá samkvæmt lyfseðli eða í handkaupi, sum hver. Á síðasta ári ritaði stjórn Læknafélags Íslands bréf til hæstv. heilbr.- og trmrh. og vakti athygli á málefnum þessa hóps og einnig því að hópurinn færi stækkandi frá ári til árs. Stjórn LÍ benti á að erlendar rannsóknir sýni að fíkn af þessu tagi hæfist ekki við hefðbundna læknismeðferð nema í minni hluta tilvika. Stjórn LÍ kom með einar þrjár tillögur til ráðherrans, og mig langar að nota þennan fyrirspurnatíma til að ítreka þær spurningar og kanna hug hæstv. ráðherra til þeirra. Þess vegna hljóðar fyrirspurn mín svo:

Hefur ráðherra ákveðið að fara að tillögum Læknafélags Íslands í bréfi, dags. 24. apríl 2002, um málefni sjúklinga sem nota sterk verkjalyf til vímugjafar þar sem lagt er til að

a. komið verði á fót miðstöð fyrir neytendur ópíata þar sem þeir fái skyld lyf eða önnur lyf til að mæta fíkninni og venjast af henni,

b. miðlæg verkjameðferð verði styrkt á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi þannig að starfandi læknar eigi auðveldara með að vísa þangað sjúklingum sem þurfa flókna verkjameðferð og þeir treysta sér ekki til að meðhöndla sjálfir,

c. embætti landlæknis verði eflt til að fylgjast með útgáfu lyfseðla á eftirritunarskyld lyf og nauðsynlegum tæknilegum útfærslum mætt í þeim tilgangi með endurskoðun á lögum og reglum sé þess þörf?