Fíkniefnameðferð

Miðvikudaginn 05. mars 2003, kl. 14:05:55 (4376)

2003-03-05 14:05:55# 128. lþ. 89.1 fundur 573. mál: #A fíkniefnameðferð# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 128. lþ.

[14:05]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. þm. Katrín Fjeldsted hefur beint fyrirspurnum til mín um meðhöndlun á málefnum sjúklinga er nota sterk verkjalyf. Notkun þessara lyfja hefur verið mikið í umræðu að undanförnu, bæði ljósvakafjölmiðlum sem og dagblöðum. Hefur umræða þessi tengst mjög vaxandi notkun ópíata sem verkjalyfja og aukinni áhættu á fíkn í þessi lyf. Einnig hefur verið í umræðunni hvort einstaka læknar beiti ekki nægjanlegu aðhaldi við ávísun á þessi lyf sem í einhverjum mæli eru í umferð meðal fíkla.

Í framhaldi af þessari umræðu hef ég ásamt starfsmönnum ráðuneytisins átt fundi með landlækni og forstöðumönnum helstu stofnana sem að þessum málum koma, svo sem geðdeildar Landspítala -- háskólasjúkrahúss og SÁÁ. Ég hef í framhaldi af þessu beint þeim óskum til landlæknisembættisins að það leggi tillögu fyrir ráðuneytið um hvernig meðhöndlun þessara efna verði hagað, hvort þrengja beri ávísunarmöguleika eða reglur um notkun svokallaðra ópíata. Í þessu sambandi er óhjákvæmilega þáttur að sum þessi lyf eru mjög nauðsynleg við flókinni verkjameðferð og ég tel því mikilvægt að í þessu sambandi verði stutt við þær meðferðarstofnanir og aðila sem hafa einbeitt sér að erfiðri verkjameðferð. Ég á von á því að landlæknir muni fljótlega leggja fyrir ráðuneytið tillögur um þau atriði sem að honum snúa. Tel ég allar líkur á að að miklu leyti verði farið að tillögu Læknafélags Íslands sem fyrirspyrjandi nefnir en félagið sendi inn tillögur á sl. vormánuðum um málefni sjúklinga sem nota sterk verkjalyf.

Herra forseti. Mál þetta hefur verið í alvarlegri umfjöllun í ráðuneytinu og öðrum stofnunum og ég vonast til að fljótlega megi sjá tillögur í þessa veru. Þáttur í því eru tillögur ráðuneytisins um bætta skráningu lyfjanotkunar sem geri embætti landlæknis betur kleift að fylgjast með útgáfu lyfseðla á sterk verkjalyf og eftirritunarskyld lyf en að mínu mati þarf að bæta möguleika embættisins til slíks.