Átraskanir

Miðvikudaginn 05. mars 2003, kl. 14:17:59 (4382)

2003-03-05 14:17:59# 128. lþ. 89.2 fundur 575. mál: #A átraskanir# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 128. lþ.

[14:17]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég þakka enn hv. þm. Katrínu Fjelsted fyrir að taka þetta mál upp og minna á þáltill. sem var samþykkt árið 2002. Eins vil ég þakka ráðherra fyrir þann skilning sem hann sýnir málinu og áhuga á að leysa þetta erfiða mál. Ég vænti þess eftir svörum hans að sérhæfðri meðferð, sérdeild eða sérstökum úrræðum, verði beitt eftir að tillögur landlæknis liggja fyrir.

Þó að starfandi sé teymi innan Landspítalans sem fæst við átraskanir þá er það ekki nóg. Þetta er mjög flókin meðferð eins og hér var farið yfir. Það eru margir sem þurfa að koma að henni. Þetta er langtímameðferð og svo sérhæfðri meðferð verður ekki komið upp nema á einum stað í landinu. Heilbrigðisstofnanir úti á landi geta svo fylgt eftir og verið stuðningsaðilar. En það þarf þessa sérhæfingu og hún þyrfti að komast á hið fyrsta.