Komugjöld á heilsugæslustöðvum

Miðvikudaginn 05. mars 2003, kl. 14:25:54 (4386)

2003-03-05 14:25:54# 128. lþ. 89.3 fundur 609. mál: #A komugjöld á heilsugæslustöðvum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 128. lþ.

[14:25]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. 8. þm. Reykn. Kristján Pálsson hefur beint til mín fyrirspurn um komugjöld á heilsugæslustöðvum. Fyrir hverja komu á heilsugæslustöð greiða sjúkratryggðir 500 kr. á dagvinnutíma. Ellilífeyrisþegar og örorkulífeyrisþegar og börn yngri en 18 ára greiða 250 kr. og börn með umönnunarkort, samkvæmt reglugerð nr. 540/1997, um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna, greiða 150 kr.

Almennt gjald fyrir hverja komu á heilsugæslustöð utan dagvinnutíma er 1.400 kr. Komugjald ellilífeyrisþega, örorkulífeyrisþega og barna yngri en 18 ára eru 600 kr. utan dagvinnutíma. Börn með umönnunarkort greiða 400 kr. í komugjöld utan dagvinnutíma. Þeir sem eru með afsláttarskírteini greiða 250 kr. fyrir hverja komu á heilsugæslustöð á dagvinnutíma og 900 kr. utan dagvinnutíma. Ellilífeyrisþegar, örorkulífeyrisþegar og börn yngri en 18 ára með afsláttarskírteini greiða 150 kr. á dagvinnutíma og 400 kr. utan dagvinnutíma.

Undanþegnar gjaldskyldu eru komur vegna mæðra- og ungbarnaverndar og komur vegna heilsugæslu í skólum. Einnig er þjónusta heimahjúkrunar undanþegin gjaldskyldu svo og unglingamóttaka í heilsugæslu, sem veitir ráðgjöf og fræðslu um forvarnir.

Hv. þm. spyr hversu háar heildargreiðslur komugjalda hafi verið árlega sl. þrjú ár. Heildartekjur heilsugæslustöðva af komugjöldum á árinu 2000 voru rúmar 292 millj., rúmar 298 millj. kr. árið 2001 en á árinu 2002 lækkuðu tekjur heilsugæslu af komugjöldum niður í 241 millj. kr. Ástæðan er lækkun komugjalda úr 850 kr. í 400 kr. snemma á árinu 2002.

Þá spyr hv. þm. hvernig greiðslurnar skiptist á milli hópa. Þær upplýsingar eru ekki tiltækar hjá heilsugæslunni og því miður kostar gífurlega vinnu að afla þeirra. Ég hef þær því ekki handbærar.

Að lokum spyr þingmaðurinn um stefnu ráðherra varðandi slík gjöld. Stefna ráðuneytisins er að heilsugæslan eigi að annast grunnþjónustuna og að þangað komu skjólstæðingarnir fyrst. Í reglugerð nr. 218/2002, um hlutdeild sjúkratryggðra vegna heilbrigðisþjónustu, segir eftirfarandi:

,,Í samræmi við markmið um að tryggja fagleg samskipti milli heilsugæslulækna, heimilislækna og sérfræðinga er gert ráð fyrir því sem meginreglu í reglugerð þessari að samskipti sjúklings og læknis hefjist hjá heilsugæslu- eða heimilislækni.``

Heilsugæslan er grunnþjónusta heilbrigðisþjónustunnar og ekki stendur til að hverfa frá þeirri stefnu að þjónustan sé almenn, aðgangur greiður og óháður tekjum, eignum eða félagslegri stöðu manna. Það hefur verið yfirlýst stefna mín að halda komugjöldum í heilsugæslu í lágmarki til að tryggja slíkt jafnræði og tryggja heilsugæsluna í sessi.

Virðulegi forseti. Ég vona að hv. þm. Kristján Pálsson hafi fengið svör við helstu þáttum þessarar fyrirspurnar.