Komugjöld á heilsugæslustöðvum

Miðvikudaginn 05. mars 2003, kl. 14:31:41 (4389)

2003-03-05 14:31:41# 128. lþ. 89.3 fundur 609. mál: #A komugjöld á heilsugæslustöðvum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi KPál
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 128. lþ.

[14:31]

Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir svörin og þingmönnum fyrir þátttöku í umræðunni. Það var slæmt að hæstv. ráðherra skyldi ekki geta svarað spurningunni um það hvernig þessar greiðslur skiptast á milli þjóðfélagshópanna aldraðra, barna, öryrkja og annarra. Þetta var ástæðan fyrir spurningu minni, þ.e. að komast að því hvað þessir hópar þyrftu að greiða mikið.

Við sjáum það á töxtunum sem gefnir eru út að allir greiða eitthvað og auðvitað má deila um það hvort slík þjónusta eigi að vera alveg ókeypis en í mínum huga er þó ekki sama um hvaða þjóðfélagshópa er að ræða. Þessir hópar eru akkúrat þeir sem minnstar tekjur hafa og hafa mesta þörf fyrir notkun grunnþjónustu eins og heilsugæslan er.

Ef ég man rétt, herra forseti, þegar byrjað var að taka greiðslur fyrir komur á heilsugæslustöðvar var það hugsað fyrir umbúðum og ýmsu öðru sem ekki var talin bein grunnþjónusta. Síðan hefur þetta þróast, bæði hækkaði það um tíma en lækkaði síðan aftur. Mér finnst full ástæða til að skoða hvort ekki eigi að beina þessum töxtum meira inn á þá hópa sem virkilega geta borgað en aðrir sem minna mega sín sleppi við það.