Ráðning sjúkrahúsprests við Barnaspítala Hringsins

Miðvikudaginn 05. mars 2003, kl. 14:39:54 (4392)

2003-03-05 14:39:54# 128. lþ. 89.4 fundur 615. mál: #A ráðning sjúkrahúsprests við Barnaspítala Hringsins# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 128. lþ.

[14:39]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir hefur beint til mín fyrirspurn um ráðningu sjúkrahúsprests við Barnaspítala Hringsins. Spurningin er svohljóðandi:

,,Hvert er viðhorf ráðherra til þess að ráðinn verði sérstakur sjúkrahúsprestur við nýja barnaspítalann til að bæta þjónustu við foreldra langveikra og fatlaðra barna``?

Stjórnendum spítalans hefur verið falið að skipuleggja starfsemina og taka ákvarðanir um mönnun og nýtingu stöðuheimilda. Ég tel ekki skynsamlegt að ráðherra hlutist til um starfsmannahald nema í algerum undantekningartilvikum, enda starfa á sjúkrahúsum tæplega 5 þús. manns.

Sjúkrahúsprestum hefur fjölgað mjög á síðustu árum. Þeir eru nú átta á Landspítalanum og er einum þeirra greidd grunnlaun frá þjóðkirkjunni. Kostnaður við þetta starf er 52 millj. kr. á ári og eru þá aðeins talin laun og rekstur. Ekki eru áform um að auka við þessa starfsemi á kostnað annarra þjónustuþátta. Sjúkrahúsprestar eru ekki ráðnir að einu tilteknu sviði á spítalanum heldur hafa þeir víðtækara starfssvið. Einn prestanna hefur þó lagt mesta áherslu á störf við barnaspítalann og hefur verið til athugunar hvort hann ætti að hafa aðsetur í hinni nýju byggingu. Hann sinnir öllum börnum og aðstandendum þeirra og það verður að teljast ólíklegt að ráðinn verði prestur til að bæta prestsþjónustu sérstaklega við foreldra langveikra og fatlaðra barna. Þar koma m.a. til sjónarmið um jafnræði í þjónustu.

Herra forseti. Ég tel mikilvægt að tryggja að skjólstæðingar barnaspítalans og bráðveik, langveik og fötluð börn og fjölskyldur þeirra og starfsfólk fái á hverjum tíma þjónustu presta eftir því sem þörf krefur. Ég mun þó ekki beita mér fyrir því að þessi þjónusta verði aukin fyrir aðstandendur þeirra barna sem hér um ræðir sérstaklega af ástæðum sem ég hef rakið áður.