Ráðning sjúkrahúsprests við Barnaspítala Hringsins

Miðvikudaginn 05. mars 2003, kl. 14:42:07 (4393)

2003-03-05 14:42:07# 128. lþ. 89.4 fundur 615. mál: #A ráðning sjúkrahúsprests við Barnaspítala Hringsins# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 128. lþ.

[14:42]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur í fyrirspurn hennar þar sem hún leggur áherslu á mikilvægi sálgæslu og áfallahjálpar til þeirra sem þurfa að sækja þjónustu til barnaspítalans og mikilvægi þess að foreldrar fái góðan stuðning og aðhlynningu og ekki aðeins foreldrar heldur fjölskylda langveikra og fatlaðra barna sem eru þar til meðferðar. Hvort það er sérstakur sjúkrahúsprestur eða hvort einhver af sjúkrahúsprestunum sinni þessu sérstaklega finnst mér ekki vera stórmál en það er mikilvægt að þessu hlutverki sé vel sinnt og ef einn af prestunum tekur þetta sérstaklega að sér, þá er það til bóta.

Mig langar aðeins til að víkja að öðrum hópi sem heyrir kannski ekki undir þessa þjónustu og það er fólk sem er annarrar trúar eða utan trúfélaga og án þjónustu því að við megum ekki gleyma því að í fjölþjóðlegu samfélagi eins og við erum orðin eru ýmsir sem þurfa annars konar þjónustu en presta og vil ég aðeins fá upplýsingar frá hæstv. ráðherra um slíka þjónustu fyrir þetta fólk.