Ráðning sjúkrahúsprests við Barnaspítala Hringsins

Miðvikudaginn 05. mars 2003, kl. 14:43:20 (4394)

2003-03-05 14:43:20# 128. lþ. 89.4 fundur 615. mál: #A ráðning sjúkrahúsprests við Barnaspítala Hringsins# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 128. lþ.

[14:43]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ekki hafði ég hugsað mér að hæstv. heilbrrh. ætti að fara að blanda sér í mannaráðningarnar. Þetta er hins vegar spurning um ákveðna stefnumörkun og ekki óeðlilegt að hæstv. heilbrrh. og yfirstjórn spítala ræði það ef áhugi er fyrir því að reyna að fara í auknum mæli inn í fyrirbyggjandi heilbrigðisstarfsemi sem flokkur ráðherrans hefur reyndar stutt mjög mikið.

Það er mjög jákvætt að prestum hefur fjölgað við Landspítalann og dregur skýrt fram að störfin þeirra hafa orðið allt annars eðlis en í upphafi þegar ráðinn var sjúkrahúsprestur kannski fyrst og fremst til að bregðast við þegar alvarleg áföll urðu eða lát manna. Ráðherra nefnir 52 millj. og að ekki séu áform um að auka þar við starfsemi og fjölga prestum á kostnað annars starfsfólks. Ég vil þar endilega áminna um þetta með lyfin. Það er sumt sem við látum renna mjög svo greiðlega í gegnum kostnað heilbrigðiskerfisins. Ef ég man rétt er lyfjakostnaður hjá okkur núna um það bil 8 milljarðar á ári og þar af um 3 milljarðar varðandi geðdeifð eða vanlíðan og margir heilsugæslulæknar eyða stórum tíma í að ræða við fólk sem líður illa. Ég er að tala um að mjög veik börn eru send heim. Þetta er þung byrði. Það er álag fyrir fjölskyldur, foreldra og heimilið. Samtalsmeðferðin er ekki nógu virk hjá okkur. Við þurfum að ganga lengra. Þriðja hvert hjónaband brestur í dag og álagið á foreldra sem eiga fötluð, langveik börn er gífurlegt og hætt við að þar séu meiri erfiðleikar en annars staðar. Þessu eigum við að afstýra, þetta eigum við að fyrirbyggja.