Ráðning sjúkrahúsprests við Barnaspítala Hringsins

Miðvikudaginn 05. mars 2003, kl. 14:45:35 (4395)

2003-03-05 14:45:35# 128. lþ. 89.4 fundur 615. mál: #A ráðning sjúkrahúsprests við Barnaspítala Hringsins# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 128. lþ.

[14:45]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég vil taka fram að prestsþjónusta á Landspítalanum -- háskólasjúkrahúsi hefur aukist mjög á undanförnum árum. Mikið hefur verið lagt í þennan þátt eins og sést á því að átta stöður á sjúkrahúsinu sinna honum. Ég tek undir með hv. fyrirspyrjanda að við verðum að efla þessa þjónustu. Ég vona að svo verði og að einn prestur hafi aðstöðu á barnaspítalanum til að sinna því fólki.

Því er hins vegar ekki að neita að það hefur oft komið upp umræða um hlutverk spítalans í þessu efni. Forsvarsmenn spítalans hafa oftar en einu sinni spurt mig hver stefna ráðuneytisins sé í þessum efnum, hvort efla eigi þessa starfsemi, fela einhverjum öðrum hana, eða hvað. Ég tel að það verði að veita þessa þjónustu og hef látið þá stefnu í ljós í viðræðum við forsvarsmenn spítalans. Hins vegar koma auðvitað upp spurningar eins og hjá hv. 15. þm. Reykv. um aðra sem aðhyllast ekki kristna trú. Sú umræða fer auðvitað vaxandi. Við stöndum frammi fyrir ýmsum slíkum spurningum. Það breytir ekki afstöðu minni til þessa máls. Það er alveg ljóst að hún er sú að halda þessari þjónustu í því formi sem hún er og reyna að sinna öllum sem best að þessu leyti. Vonandi sparar það lyfjakostnað því að lyfjakostnaðurinn á spítalanum er 2,5 milljarðar kr. (RG: En í landinu?) Já, á spítalanum er kostnaðurinn 2,5 milljarðar en í landinu er lyfjapakkinn margfalt stærri, um 13 milljarðar.