Greiðslur Tryggingastofnunar fyrir sjúkranudd

Miðvikudaginn 05. mars 2003, kl. 14:50:47 (4397)

2003-03-05 14:50:47# 128. lþ. 89.5 fundur 616. mál: #A greiðslur Tryggingastofnunar fyrir sjúkranudd# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 128. lþ.

[14:50]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir hefur beint til mín fyrirspurn um hvort áform séu um að Tryggingastofnun taki þátt í að greiða hluta kostnaðar sjúklinga við sjúkranudd. Því er til að svara að fjölmargar löggiltar heilbrigðisstéttir sem og aðrar stéttir tengdar heilbrigðisþjónustu hafa sótt um að fá að gera samninga við Tryggingastofnun ríkisins um greiðsluþátttöku. Helstu starfsstéttir sem Tryggingastofnun ríkisins hefur samninga við í dag eru læknar, hjúkrunarfræðingar og sjúkraþjálfarar.

Fjölgun þeirra stétta sem Tryggingastofnun ríkisins greiðir fyrir er í stöðugri skoðun hjá okkur og endurmati. Takmarkaðar fjárveitingar setja þessu máli hins vegar skorður. Þær gera það að verkum að að svo stöddu er ekki mögulegt að taka upp greiðsluþátttöku Tryggingastofnunar ríkisins í kostnaði sjúklinga við sjúkranudd. Svar mitt er því að við höfum ekki af fjárhagslegum ástæðum getað tekið upp þessa samninga.