Greiðslur Tryggingastofnunar fyrir sjúkranudd

Miðvikudaginn 05. mars 2003, kl. 14:53:21 (4399)

2003-03-05 14:53:21# 128. lþ. 89.5 fundur 616. mál: #A greiðslur Tryggingastofnunar fyrir sjúkranudd# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 128. lþ.

[14:53]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég harma að menn hafi ekki ákveðið neitt um að semja við sjúkranuddara. Eins og fram kom í umræðunni er sjúkranudd fyrirbyggjandi. Það er t.d. mjög mikilvægt fyrir gigtarsjúklinga sem eru á dýrum lyfjum. Þeir hafa mikla þörf fyrir sjúkranudd og það gæti sparað mikið í lyfjakostnaði fyrir þann hóp. Spastískir sjúklingar þurfa t.d. tilfinnanlega bæði á sjúkraþjálfun og sjúkranuddi að halda.

Sjúkranuddarar sem ég hef verið í sambandi við hafa sagt mér að margir sem þurfa tilfinnanlega á sjúkranuddi að halda hafi hætt í meðferð vegna þess hve mikill kostnaður er af meðferðinni. Þeir eru e.t.v. áfram í sjúkraþjálfuninni sem kemur þeim kannski ekki að sama skapi til góða.

Lögð er mikil áhersla á fyrirbyggjandi meðferð og árangur í markmiðum heilbrigðisáætlunar. Þar hefði þjónusta sjúkranuddara komið að góðu haldi en á meðan fátækt fólk getur ekki leyft sér þá þjónustu náum við síður þeim markmiðum. Eins og ég benti á í ræðu minni áðan eru það ekki margir sem sinna þessu, um 30 ársstörf. Útgjöldin ættu þannig ekki að vera veruleg en ég er sannfærð um að þetta mundi spara heilbrigðiskerfinu allmikil útgjöld, bæði í lyfjakostnaði og öðrum kostnaði, þ.e. ef menn geta nýtt sér þá fyrirbyggjandi meðferð sem sjúkranuddið er.