Geðheilbrigðisþjónusta fyrir börn og unglinga

Miðvikudaginn 05. mars 2003, kl. 15:00:48 (4402)

2003-03-05 15:00:48# 128. lþ. 89.6 fundur 628. mál: #A geðheilbrigðisþjónusta fyrir börn og unglinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 128. lþ.

[15:00]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon leggur fyrir mig fyrirspurn í fjórum liðum um geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn og unglinga. Fyrsta spurningin er svohljóðandi: ,,Hver hefur þróun mála verið að undanförnu hvað varðar bið eftir almennri þjónustu barna- og unglingageðdeildar Landspítala -- háskólasjúkrahúss?``

Fjöldi á biðlista hefur breyst svona: 1996 78, 1997 72, 1998 95, 1999 54, 2002 59, í janúar 2003 43. Af þessum 43 sem biðu eftir viðtali nú í janúar biðu 25 eftir mati á ofvirkni en velta má fyrir sér hvort þeir einstaklingar þurfi þjónustu svo sérhæfðrar meðferðarstofnunar sem barna- og unglingageðdeildin er. Biðlisti á barnageðdeild er fyrir börn sem bíða eftir meðferðarúrræðum deildarinnar. Af þeim biðlista er innkallað og er deildarstjóri barnageðdeildar reglulega í sambandi við foreldra og aðstandendur barnanna. Sá biðlisti hefur verið að lengjast smám saman. Hann hefur tekið til um 1--10 barna en um þessar mundir eru á honum 20 börn. Erfitt hefur reynst að manna barnageðdeildina hjúkrunarfræðingum eftir þörfum og hefur biðlistinn sveiflast nokkuð í samræmi við það, bæði hvað varðar dagdeildarúrræði og sólarhringsþjónustu. 13 unglingar voru á biðlista unglingageðdeildar í lok ársins 2002. Var það mjög óvenjulegt ástand eins og fram hefur komið í fyrri fyrirspurnum og umræðum á Alþingi. Af þessum 13 voru þrír í miklum forgangi. Að ósk minni hefur Landspítalinn tekið saman ítarlegar tillögur um hvernig bregðast megi við þessum vanda og ég hef þær tillögur til skoðunar einmitt þessa dagana.

Þá spyr þingmaðurinn: ,,Hve mikil brögð eru að því að vista hafi þurft börn eða unglinga á geðdeildum fyrir fullorðna?``

Eftir að sjálfræðisaldur hækkaði í 18 ár hafa ekki verið mikil brögð að þessu, nokkrar innlagnir á ári og þá eldri unglingar. Fullorðinsgeðdeildir hafa mætt vandanum þegar miklir toppar hafa myndast á barnageðdeild eða þegar einstök sjúkdómstilfelli eru þannig að einstaklingur er ekki talinn eiga heima á unglingageðdeild þrátt fyrir ungan aldur. Innlögn byggir á mati barnageðlæknis hverju sinni. Nauðsynlegt er að hafa þennan möguleika opinn og að hinir ungu einstaklingar fái þá meðferð sem hæfir aldri þeirra og þroska. Eins og fram hefur komið versnaði ástandið í janúar en þá voru 5--6 unglingar vistaðir á fullorðinsgeðdeild.

Þá er spurt: ,,Hversu löng bið er eftir meðferðarúrræðum fyrir unga fíkniefnaneytendur sem eiga jafnframt við geðræn vandamál að stríða?``

Samkvæmt upplýsingum frá SÁÁ er enginn biðlisti eftir meðferð fyrir þennan hóp á unglingageðdeildinni á Vogi. Félmrh. mun væntanlega gera ítarlega grein fyrir bið eftir þjónustu á þeim stofnunum sem undir hann heyra í svari við fyrirspurn þingmannsins en þess skal þó getið að nú er engin bið eftir þjónustu á Stuðlum, engin bið eftir dvöl á Árvöllum en 16 bíða innlagnar í langtímaúrræði sem fylgja skólaárinu.

,,Hvað líður fyrirhugaðri uppbyggingu geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn og ungmenni við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri?``

Á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri hefur verið mótuð sú stefna að sinna þessum skjólstæðingahópi fyrst og fremst með göngudeildarþjónustu með þverfaglegu teymi, en að börn með geðrænan vanda legðust aðeins inn á stofnunina í algjörum undantekningartilvikum. Legudeild fyrir börn og unglinga með geðraskanir sem áformað var að reka þar til þessi stefna var mótuð mundi aðeins hafa 2--3 rúm að staðaldri. Nú er gert ráð fyrir að þetta verði eingöngu göngudeild en börn sem þarf að leggja inn verði lögð inn á barnadeild. Nú er stefnt að ráðningu sérmenntaðs og sérhæfðs starfsfólks til að sinna þjónustunni.