Geðheilbrigðisþjónusta fyrir börn og unglinga

Miðvikudaginn 05. mars 2003, kl. 15:06:10 (4404)

2003-03-05 15:06:10# 128. lþ. 89.6 fundur 628. mál: #A geðheilbrigðisþjónusta fyrir börn og unglinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., JBjart
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 128. lþ.

[15:06]

Jónína Bjartmarz:

Herra forseti. Ég vil fyrst og fremst fá að þakka málshefjanda fyrir að vekja máls á þessu þarfa máli og aftur hæstv. heilbrrh. fyrir svör hans og fá að segja frá því að á fundi í heilbr.- og trn. nú í hádeginu var fjallað um þetta mál frá öllum hliðum. Við fengum fulltrúa frá heilbrrn., félmrn., Barnaverndarstofu og Landspítalanum og eins frá fræðsluráði í Reykjavík. Þar kemur náttúrlega fram þessi stóri vandi sem fyrst og fremst tengist þeim börnum sem eru með samþætt vandamál. Það eru geðraskanir, vímuefnaneysla og oftar en ekki andfélagsleg hegðun. Af því að síðasti ræðumaður ræddi um aðkomu félmrh. að þessu vil ég vekja athygli á því að við getum allt eins blandað einum ráðherranum enn inn í þetta. Þessir krakkar lenda oftar en ekki í afbrotum þannig að við getum þá nefnt dómsmrn. til viðbótar.

Hins vegar var verið að ræða um samstarfið á milli þessara aðila varðandi bráðaþjónustu og mér heyrist það enn vera í gangi.