Geðheilbrigðisþjónusta fyrir börn og unglinga

Miðvikudaginn 05. mars 2003, kl. 15:09:51 (4407)

2003-03-05 15:09:51# 128. lþ. 89.6 fundur 628. mál: #A geðheilbrigðisþjónusta fyrir börn og unglinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 128. lþ.

[15:09]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og hv. þingmönnum undirtektir með þessu máli. Ég var satt best að segja að vona að hæstv. ráðherra gæti boðað hér aðgerðir, gæti tilkynnt hvað af tillögum starfshóps síns hann mundi gera að sínum og hvernig þær yrðu framkvæmdar. Það væri vel við hæfi að ráðherrar sýndu Alþingi einu sinn þann sóma að boða slíkar aðgerðir hér þegar þeir eru að þeim spurðir í staðinn fyrir að rjúka til og halda blaðamannafundi sem stundum reynast aðallega skrautsýningar en boða ekki alltaf þá úrlausn mála sem ætla mætti.

Ástandið er óviðunandi. Það kom skýrt fram í tölum hæstv. ráðherra og þeim ber í öllum aðalatriðum saman við að sem ég hef fengið upp í hendur þegar ég hef verið að setja mig inn í málið á undanförnum vikum. Satt best að segja hefur það verið dapurlegt, herra forseti, því að ég verð að segja að mig óraði ekki fyrir því þegar ég fór af sérstökum ástæðum að skoða þessi mál nánar fyrir 3--4 vikum að ástandið væri jafndapurlegt og raun ber vitni. Það gengur ekki, herra forseti, að það sé bið eftir neyðarþjónustu þar sem ungmenni í bráðri hættu eiga í hlut. Við getum ekki þolað það ástand. Og það ber svo vel í veiði, herra forseti, að fjáraukalög eru hér einhvers staðar á leiðinni í þinginu, einfaldlega vegna þess að hæstv. ríkisstjórn hefur ákveðið að fara út í verulega auknar verklegar framkvæmdir á næstu 18 mánuðum upp á 6.300 millj. kr. Það er vel. En þjóðfélag sem hefur efni á því að spýta í framkvæmdir sem nemur slíkum fjárhæðum hlýtur að geta sett aðeins meiri fjármuni í þann bráða vanda sem snýr að börnunum okkar og ungmennunum sem sum hver eru jafnvel í bráðri hættu. Ég vona að hæstv. ráðherra geti gefið hér aðeins nánari upplýsingar um það hvenær farið verði í þessar aðgerðir. Þær liggja fyrir, að fjölga rúmum, að ráða starfsfólk. Vilji er allt sem þarf.