Geðheilbrigðisþjónusta fyrir börn og unglinga

Miðvikudaginn 05. mars 2003, kl. 15:12:06 (4408)

2003-03-05 15:12:06# 128. lþ. 89.6 fundur 628. mál: #A geðheilbrigðisþjónusta fyrir börn og unglinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 128. lþ.

[15:12]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ekki skal standa á mér að skýra Alþingi frá því til hvaða aðgerða verður gripið. Ég bað þennan starfshóp Landspítalans að skila mér tillögum fljótt vegna þess hve aðkallandi málið er. Ég fékk þær tillögur núna eftir helgina og hef verið að vinna að þeim. Ég hef sagt að mér finnist þær raunhæfar og byggja á raunhæfu mati. Þær kosta fjármuni sem ég þarf að vinna að því að tryggja. Ég get ekki sagt um niðurstöðuna af því á þessari stundu en ég lít þetta mál mjög alvarlegum augum og hef einsett mér að vinna að því eins og mér er unnt.

Það er ljóst að þessar tillögur kosta fjármuni, þær kalla á stofn- og rekstrarkostnað, en eigi að síður er einn liður í þeim þó sem mér er gefið upp að muni jafnvel ekki hafa umtalsverðan kostnað í för með sér, að fjölga rúmum um þrjú. Ég tel einboðið að gera það. Hins vegar er með því ekki nóg að gert. En ég er boðinn og búinn til þess að greina þinginu frá þessum málum og ég þakka þann áhuga sem þingmenn hafa sýnt þeim. Ég met þann stuðning þingsins sem kemur fram í þessari umræðu og þakka fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa málinu.