Átaksverkefni til að sporna við atvinnuleysi

Miðvikudaginn 05. mars 2003, kl. 15:37:27 (4416)

2003-03-05 15:37:27# 128. lþ. 89.9 fundur 591. mál: #A átaksverkefni til að sporna við atvinnuleysi# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 128. lþ.

[15:37]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Fyrir nokkru síðan, á nefndadögum þingsins, lagði ég inn fyrirspurn til hæstv. félmrh. í ljósi mjög vaxandi atvinnuleysis, um hvort ríkisstjórnin hygðist stuðla sérstaklega að því að farið yrði út í átaksverkefni til að sporna við vaxandi atvinnuleysi sambærileg þeim sem talsvert var ráðist í um miðjan síðasta áratug og upp úr því þegar atvinnuleysi var einmitt mikið eins og nú háttar til.

Mér er að sönnu ljóst að heimildir eru til staðar til að greiða laun við sérstakar afmarkaðar aðstæður þegar fólk er ráðið af atvinnuleysisskrá til tímabundinna verkefna. En ég varð lítið var við að þessi möguleiki væri notaður auk þess sem hæstv. ríkisstjórn gæti þurft að greiða fyrir slíku með ýmsum hætti, t.d. með auknum fjármunum til að standa þá straum af ýmsu sem þessu tengist.

Þá ber einnig á það að líta, herra forseti, að þær reglur sem í gildi eru um úthlutun styrkja úr Atvinnuleysistryggingasjóði til sérstakra verkefna á vegum svæðisvinnumiðlana eru mjög þröngar og þar af leiðandi ekki nema í afar afmörkuðum tilvikum sem menn falla undir þessar reglur. Það er t.d. ljóst að þetta verður að vera alfarið innan umdæmissvæðis vinnumiðlana og á þeirra vegum. Þetta má ekki vera í samkeppni, eins og það er orðað, við annan hliðstæðan atvinnurekstur á landsvísu. Það getur verið ákaflega teygjanlegt. Þetta þarf að vera skýrt afmarkað og tímabundið og ekki ná að jafnaði yfir lengri tíma en sex mánuði og unnið í einu lagi og nota skal vinnuafl á atvinnuleysisskrá í umdæmi svæðisvinnumiðlunar. Þó að þetta líti afar vel út á pappírunum og virðist auðvitað rakið, sem það er, að greiða frekar upp í launakostnað við verkefni sem ráðist er í til þess að koma þeim á fót --- það getur tengst jafnvel nýsköpun í atvinnulífi, upphafi nýs rekstrar o.s.frv. --- eru hins vegar þessar reglur mjög takmarkandi. Það hlýtur einnig að þurfa að koma til álita hvort þær þurfi ekki að endurskoða og sömuleiðis hvetja til þeirra með ýmsum hætti.

Nú hefur hæstv. ráðherra haldið blaðamannafund og vakið sérstaka athygli á þessum möguleika og er það vel í sjálfu sér. Ég vil samt spyrja hæstv. ráðherra út í þetta almennt og þá hvaða möguleika hann telji á að þetta nýtist mönnum, hvort jafnvel þurfi að rýmka reglur þannig að þetta komi að meira gagni.